Vinnuverndarráðstefna á Ísafirði 9. október

Miðvikudaginn 9. október frá kl. 12:30 til 16 stendur Vinnueftirlitið fyrir ráðstefnu í Edinborgarhúsinu á ÍSAFIRÐI um öryggimál starfsmanna í fiskeldi og fiskvinnslu þar sem áhersla verður lögð á meðferð hættulegra efna við vinnu í þessum starfsgreinum. Frítt er á ráðstefnuna en skráning er nauðsynleg og fer fram HÉR.

 

Ráðstefnan er styrkt af Vinnuverndarstofnun Evrópu (EU-OSHA) og er hluti af samræmdu átaki hennar og samstarfsaðila um örugga meðferð hættulegra efna en átakið hófst í fyrra og lýkur í lok þessa árs. Í fyrra hélt Vinnueftirlitið tvær vel heppnaðar ráðstefnur á Akureyri og í Reykjavík um þetta viðfangsefni og hægt er að horfa á upptökur þeirra og lesa glærur af þeim HÉR og HÉR.

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri setur ráðstefnuna. Meðal fyrirlesara verður Salmar Jóhannsson, gæðastjóri hjá Kampa á Ísafirði.

 

Sérstakur fyrirlesari ráðstefnunnar er Mariann Sandsund en hún er frá Sintef í Noregi en Sintef er ein stærsta óháða rannsóknastofnun Evrópu m.a. á sviðum sem snerta vinnuvernd. Mariann leiddi stóra rannsókn í samvinnu við háskóla í Norður Noregi á vinnuumhverfi og heilsu starfsmanna í norska fiskveiðiflotanum og í sjókvíaeldi þar sem sjónum var m.a. beint að kulda við vinnu og áhrifa hans á heilsu starfsmanna. Hennar fyrirlestur mun fjalla um samspil vinnu og heilsu í fiskeldi m.t.t. mats starfmanna, vinnuálag og vinnuumhverfi. Þá verða 4 aðrir áhugaverðir fyrirlestrar, bæði frá sérfræðingum Vinnueftirlitsins og gæða- eða öryggisstjórum í fiskvinnslu og fiskeldi á Vestfjörðum.

Ráðstefnustjóri: Sigurður Einarsson, sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu

Meginmarkmið átaksins er annars er að vekja athygli á þeirri hættu sem að starfsfólki getur verið útsett fyrir við meðferð hættulegra efna á vinnustöðum, stuðla að vinnumenningu til að útrýma hættulegum efnum eða bæta meðferð á þeim og auka sérstaklega skilning á þeirri áhættu sem stafar af krabbameinsvaldandi efnum. Þá er lögð áhersla á að vernda starfsmenn í sérstökum áhættuhópum, s.s. börn, þungaðar konur og erlenda starfsmenn og veita upplýsingar og fræðslu um meðferð hættulegra efna, t.d. með námskeiðum og útgáfu fræðsluefnis.