Þ-H leið: gæti tafist vegna deilna við landeigendur

Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni segir að áfram verði unnið að því að ná samningum við landeigendur. Töluverð vinna hefur verið lögð í það til þessa í því skyni Vegagerðin geti hafið framkvæmdir þegar framkvæmdaleyfi er fengið. Magnús segir að fáir undirritaðir samningar liggi fyrir en ágætar horfur um samkomulag við flesta landeigendur. „Landeigendur að Gröf og Hallsteinsnesi hafa neitað að eiga samningaviðræður við Vegagerðina meðan skipulagsmál eru óljós“ segir Magnús og viðurkennir að það gæti tafið framkvæmdir ef það dregst að niðurstaða fæst.

Náist ekki samningar getur komið til eignarnáms og það er ferli sem tekur tíma og óvíst er hvenær lýkur segir Magnús Valur Jóhannsson.

Eftir samþykkt sveitarstjórnar Reykhólahrepps í gær þar sem samþykkt var að setja Þ-H leið inn á aðalskipulag fer málið til Skipulagsstofnunar til staðfestingar. Stofnunin hefur fjórar vikur til þess að afgreiða erindið. Að því fengnu getur Vegagerðin sótt um framkvæmdaleyfi fyrir nýja veginum. Búast má við því að sveitarstjórn samþykki það fljótt og vel.

 

DEILA