Súðavíkurhöfn illa skipgeng

Bragi Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir að höfnin í Súðavík sé illa skipgeng þar sem malarrif hefur safnast upp við innsiglinguna. „Fjara er komin við bryggjuenda og því ekki líklegt að mikil umferð stærri skipa með einhverja ristu verði þegar ástandið er svona. En þetta er mikið öryggismál hér í Súðavík, enda alltaf hætta á að Súðavíkurhlíðin lokist að vetri.“ segir Bragi.

Sveitarstjóri hefur óskað eftir því við Vegagerðina að bætt verði úr þessu, þ.e. höfnin hreinsuð þannig að innsigling verði tryggð og viðlegukantur verði nothæfur. Aðrar úrbætur eru á áætlun – þ.e. dekkið í miðbakka Súðavíkurhafnar. „Svo er auðvitað stóra málið – uppbygging hafnar inn á Álftafirði. Staða þeirra mála var rædd og mun líklega skýrast mikið í vetur.“