Náttúrustofa Vestfjarða hefur fengið framhaldsstyrk til að rannsaka sjávarlús á villtum laxfiskum úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis að upphæð 5,5 m.kr. Verkefnið er eitt af sjö verkefnum sem fá styrk í ár en alls bárust sjóðnum 19 umsóknir.
Frá þessu er sagt á vefsíðu Náttúrstofu Vestfjarða.
Fiskeldi með laxfiska í sjókvíum hefur aukist hratt á skömmum tíma hér við land og vöktun laxalúsar á villtum laxfiskum er líklega besti mælikvarðinn á hvort eldisfiskur í sjókvíum hafi neikvæð áhrif á villta stofna í nágrenni við eldissvæði, segir í fréttinni. Eldislaxinn er án lúsa þegar hann er settur í kvíar en þar sem saman er komin mikill fjöldi hýsla fyrir sníkjudýr eins og lúsina þá er hætta á mögnun lúsasmits og lúsaálags.
Í rannsóknum og vöktun á lús á villtum laxfiskum í Norður Atlantshafinu er lögð áhersla á tvær tegundir sjávarlúsa sem báðar sækja í laxfiska og eru utanáliggjandi sníkjukrabbadýr úr ættinni Caligidae.
Helstu hýslar laxalúsarinnar Lepeophtheirus salmonis í Norður- og Vestur Evrópu eru lax, sjóbirtingur og sjóbleikja, lúsin finnst mjög sjaldan á öðrum tegundum fiska.