Hafrannsóknarstofnun hefur birt tölur um stangveiði í ár.
Samdráttur varð í laxveiði sumarið 2019. Heildarfjöldi stangveiddra laxa var um 28.800 fiskar, sem var sjöunda minnsta veiði sem skráð hefur verið frá árinu 1974 og sú minnsta frá árinu 2000.
Mest varð minnkunin í veiði á vestanverðu landinu en aukning kom fram í ám á Norðausturlandi.
Laxar úr gönguseiðasleppingum eru viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna og þegar veitt er og sleppt í stangveiði veiðast sumir fiskar oftar en einu sinni. Þegar litið er til veiða á villtum laxi eingöngu (ekki úr seiðasleppingum), að teknu tilliti til endurveiddra laxa, er líklegt að heildarstangveiðin árið 2019 hefði orðið um 20.000 laxar, sem væri minnsta stangveiði villtra laxa frá því farið var að skrá veiði í rafrænan gagnagrunn.
Á Vestfjörðum er stangveiði sú minnsta frá 1989 og í fyrsta sinn minni en 500 laxar. Eins var lélegt ár á Vesturlandi. Um það segir í frétt á vef Hafrannsóknarstofnunar: „Vísbendingar eru um að minni laxgengd á Vesturlandi megi að hluta til rekja til lítils hrygningarárgangs 2014. Sá árgangur hefur mælst liðfár í seiðamælingum, auk þess sem vorið 2018 var þar fremur kalt og votviðrasamt sem hafði neikvæð áhrif á seiðagöngur til sjávar.“