Sigurður Óli Rúnarsson glímukóngur Vestfjarða

Á laugardaginn var haldin glímuhátíð á Ísafirði í tilefni af 100 ára afmæli knattspyrnufélagsins Harðar. Haldin voru þrjú mót og voru keppendur samtals 30.  Fyrst var barnamót til minningar um Hermann Níelsson. Að því loknu var boðið í veglegt afmæliskaffi.

Að loknu afmæliskaffinu hófst keppni í fyrstu umferð í meistaramótsröð Glímusambands Íslands. Var mótið tileinkað Guðna kóngabana.

Í opnum flokki karla sigraði Sigurður Óli Rúnarsson, GFR og í kvennaflokki sigraði Marín Laufey Davíðsdóttir, HSK.

Þriðja mótið var keppni um Vestfirðingabeltið. Sigurvegari var Sigurður Óli Rúnarsson, GFR og Stígur Berg Sophusson, Herði  varð annar.

Hákon Óli Sigurðsson, formaður glímudeildar Harðar var ánægður með daginn og sagði að hann hefði tekist mjög vel. Þetta var í 15. sinn sem keppt var um Vestfirðingabeltið og í þriðja sinni sem Sigurður Óli Rúnarsson vinnur það. Stígur Berg Sophusson hefur unnið það oftast, sex sinnum. Síðast var keppt um beltið 2014. Beltið var smíðað 1912 á Ísafirði og  var þá keppt um það í fyrsta sinn.

 

DEILA