Samgönguáætlun Fjórðungssambandsins: jarðgöng undir Hálfdán og Mikladal

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga lagði fram í gær við upphaf Fjórðungsþingsins tillögu að samgönguáætlun fyrir Vestfirði.

Þar er lagt til að ráðist verði í þrenn jarðgöng, undir Mikladal milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar og Hálfdán, sem er milli Bíldudals og Tálknafjarðar og svo göng milli Skultulsfjarðar og Súðavíkur. Þá er mótmælt hugmyndum um veggjöld fyrir akstur um jarðgöng.

Í flugmálum er þess  krafist að auknu fjármagni verði veitt til viðhalds og endurbóta á flugvöllunum á Gjögri, Bíldudal og Ísafirði. Þá minnir Fjórðungsþing á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir samgöngur á milli landsbyggðar og höfuðborgar.

Í vegáætlun eru eftirfarandi verkefni talin upp og í þessari röð:

Dýrafjarðargöng, Dynjandisheiði, Bíldudalsvegur, Innstrandavegur og Veiðileysiháls.

 

Tillagan í heild:

 

4. haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga haldið á Hólmavík 2019 tekur undir meginmarkmið í drögum að Samgönguáætlun 2020-2034 og tengingu þeirra við sveitarstjórnarmál.
Til að ná fram meginmarkmiðum fyrir vestfirsk samfélög þarf hinsvegar aukið fjármagn til samgönguáætlunar.

Vegaáætlun.

Dýrafjarðargöng. Verkefninu líkur á árinu 2020 og þar með er stærstu hindrun rutt úr vegi að koma á viðunandi heilsárssamgöngum á milli sunnan og norðanverðra Vestfjarða. Áhrif þessa á atvinnulíf og samfélög verða víðtæk sérstaklega á nýjar atvinnugreinar s.s. laxeldi og fyrir ferðaþjónustuna með verkefninu Hringvegi 2.

Dynjandaheiði – Nýframkvæmd. Mikilvægt að aukið er við fjármagn til að ljúka megi verkefninu á fyrsta áætlunartímabilinu 2020-2024, en gerð er krafa um að stytta verktíma í stað þess að dreifa honum á fimm ár.

Bíldudalsvegur – Nýframkvæmd. Mikilvægt að nú er lagt til að aukið verði við fjármagn til þess að vinna verkefnið á öðru framkvæmdatímabili, 2025 til 2029. Tímarammi verkefnisins er hinsvegar ekki í takt við uppbyggingu samfélaga og atvinnulífs á sunnanverðum Vestfjörðum. Verkefnið þarf því að komast inn á fyrsta tímabil samgönguáætlunar og nýta hagræði skipta vinnu eftir árstíðum á móti nýframkvæmdum á Dynjandaheiði.

Innstrandavegur – Nýframkvæmd. Mikilvægt er að vegkaflinn er nú kominn á samgönguáætlun að nýju, enda er hann hluti af vegi fyrir þjónustusókn íbúa Strandabyggðar. Sú ákvörðun um að taka veginn af samgönguáætlun var í raun forkastanlegt og það er því réttmæt krafa að framkvæmdin verði sett á fyrsta tímabil samgönguáætlunar. Samtímis þarf að tryggja að fjármagn verði sett á annað tímabil samgönguáætlun og vegurinn verði lagður bundnu slitlagi í lok þess tímabils m.a. sem hluta af verkefninu Hringvegi 2.

.

Veiðileysuháls. Tillaga um að færa verkefnið af fyrsta tímabil á annað tímabil er fullkomlega forkastanleg. Samkvæmt Samgönguáætlun 2019-2023 átti að vinna verkefnið á árinu 2022, þeirri tillögu var harðlega mótmælt m.t.t. stöðu samfélagsins í
Árneshreppi og markmiðum verkefnisins Áfram Árneshreppur. Með nýrri tillögu eru stjórnvöld í raun að senda þau skilaboð að leggja beri niður samfélagið í Árneshreppi.

Jarðgangaáætlun.

Það mikilvægt að sérstök jarðgangaáætlun er nú sett fram sem hluti af Samgönguáætlun og jarðgangaverkefni verði eftirleiðis samfelld á öllu áætlunartímabilinu. Fyrir Vestfirði er mikilsvert er að Álftafjarðargöng eru tilgreind en það eru mikil vonbrigði að eingöngu á að vinna að verkefnum á áætlunartímabilinu á Mið Austurlandi. Að óbreyttu mun því liða hátt í 15 ár þar til jarðgöng kæmu næst til athugunar á Vestfjörðum. Í jarðgangaáætlun þarf að setja inn eftirfarandi framkvæmdir:

• Jarðgöng undir Hálfdán og Mikladal

•Breikka Vestfjarðagöng

• Jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar

Það eru hinsvegar vonbrigði hve lítið rými jarðgangaáætlun fær í heildarskjalinu og er í raun upptalning á jarðgangakostum sem komið hafa inn í umræðuna með mismunandi hætti en ekki eftir heildstætt mat. Í annan stað að jarðgangagerð á áætlunartímabilinu verða í samfelldri framkvæmd, jarðgöng á Mið – Austurlandi.

Hér um að ræða óviðandi stöðu því samgöngukerfi á Vestfjörðum þurfa að mæta fyrirsjáanlegum vexti í atvinnulífi s.s. fiskeldi og ferðaþjónustu auk fjölgunar íbúa. Fjallvegir sem tenging á milli byggðarlaga innan atvinnusvæða eru í þeim efnum, fortíðarlausn.
Skorað er því á stjórnvöld að vinna að heildstæðri jarðgangaáætlun til næstu 45 ára og leggja fram í þingsályktun sem viðauka við Samgönguáætlun, eigi síðar en á haustþingi 2020. Þar verði jarðgangaframkvæmdum forgangsraðað og fjármögnunarleiðir útlistaðar.

Hafnarmál.
Vaxandi umsvif í höfnum á Vestfjörðum vegna fiskeldis, sjávarútvegs, móttaka skemmtiferðaskipa og nýting kalkþörungs, kalla á aukið fjármagn og flýtingu framkvæmda. Að nokkru leyti er um sjálfbær verkefni að ræða, en hraður vöxtur sem kallar á mikla uppbyggingu á skömmum tíma er hafnarsjóðum ofviða og þar þarf að grípa til aðgerða. Dæmi hér um, er staða mála Bíldudalshafnar vegna uppbyggingu laxeldis og vinnslu kalkþörungs.

Flugmál.
Mótmælt er að ekki er gerð nein tillaga um að bregðast við ófremdarástand varðandi viðhald áætlunarflugvalla á Vestfjörðum. Ítrekuð er krafa vestfirskra sveitarfélaga um hækkun á framlögum til innanlandsflugs. Þess er krafist að auknu fjármagni verði veitt til viðhalds og endurbóta á flugvöllunum á Gjögri, Bíldudal og Ísafirði. Þá minnir Fjórðungsþing á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir samgöngur á milli landsbyggðar og höfuðborgar.

Áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, Bíldudals og Gjögurs eru mikilvægustu almenningssamgöngur Vestfirðinga og lífæð byggðanna stóran hluta ársins. Mikilvægt er að áætlunarflug sé raunverulegur valkostur fyrir ferðir íbúa og mikilvægt að lagt er til í Samgönguáætlun að niðurgreiða flugfargjöld. Auk þess þarf að auka fjármagn til niðurgreiðslu áætlunarflugs og gert kleyft að flogið verði til Bíldudals daglega og að minnsta kosti einu sinni í viku verði tvö flug.

Almenningssamgöngur

Lýst er áhyggjum af innleiðing heildarstefnu í almenningssamgöngum utan höfuðborgarsvæðis. Stjórnvöld hafa sett fram áhugaverða stefnu um eflingu almenningssamgangna innan atvinnusvæða og þjónustusókn á milli landshluta en framlög til málaflokksins samkvæmt fjárlögum og fjármálaáætlun verða lækkuð á næstu árum.
Þess er krafist að framlög til reksturs almenningssamgangna á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga verði hækkuð verulega til að tryggja, í samvinnu við sveitarfélög, að almenningssamgöngur innan vinnusóknarsvæða verði með nægri tíðni ferða til að nýtast sem raunhæfur valkostur fyrir íbúa og gesti.

Vegaþjónusta.
Lýst er áhyggjum að framlög til vegaþjónustu eru ekki að mæta aukinni umferð og ekki er mætt uppsöfnuðum halla á vetrarþjónustu í frumvarp til fjárlaga 2020. Augljóst er að ekki er hægt að reka málaflokkinn með þessum hætti og mæta ekki vaxandi þörf í takt við aukna eftirspurn.
Hækka þarf framlag til að auka vetrarþjónustu við Árneshrepp, þ.e. taka veginn úr G flokki og tryggja landsamgöngur allt árið, í stað þess að loka íbúa af í allt að 3 mánuði á ári. Ekkert annað samfélag á Íslandi býr við slíkar aðstæður og áætlunarflug með fólk og frakt svarar engan veginn þörfum samfélagsins.

Gjaldtaka.
Mótmælt er hugmyndum um gjaldtöku í jarðgöngum. Jarðgöng á Íslandi, að undantekningu Hvalfjarðargöng, hafa verið sett í framkvæmd til að leysa af hættulega fjallvegi og hlíðar. Þannig hefur verið komið á jafnræði íbúa landsins með því að byggja upp öruggar heilsárssamgöngur milli sveitarfélaga og milli byggðarlaga innan sveitarfélaga og síðan tengingu við aðra hluta landsins.
Eigi yfir höfuð að ræða gjaldtöku, þá má á sama hátt horfa á gjaldtöku á mislæg gatnamót, umferðarbrýr, umferðastokka og brýr yfir ár og fljót sem ígildi „ganga“ til að koma umferð í gegnum.

Annað.
Nýr hringvegur fyrir Ísland og ferðaþjónustu á Íslandi, Hringvegur 2 eða Vestfjarðahringur, alls 1000 km sem liggur um Dali, Vestfirði og Hrútafjörð, með mikla fjölbreytni náttúru, menningar og afþreyingar.

Í dag verða tillögur og ályktanir afgreiddar og þinginu lýkur svo síðdegis.