Sameining slökkviliða til umræðu

Á bæjarráðsfundi í Bolungavík í vikunni var lögð fram tillaga Haraldar L. Haraldssonar um að taka upp viðræður við Súðavíkurhrepp og Ísafjarðarbæ um sameiningu slökkviliða á svæðinu. Jafnframt var lagt fram minnisblað slökkviliðsstjóra um sama erindi.

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að hefja umræðu um mögulega samvinnu slökkviliðana á norðanverðum Vestfjörðum.

Þetta hefur áður verið til umræðu. Í maí 2015 ræddi bæjarráð Ísafjarðarbæjar möguleika á stofnun byggðasamlags slökkviliða á norðanverðum Vestfjörðum.  Bæjarráðið tók jákvætt í sameininguna og ræddi næstu skref. Lagt var til að bæjarstjóri ynni málið áfram í samstarfi við bæjarstjóra Bolungarvíkurkaupstaðar og sveitarstjórann í Súðavíkurhreppi ásamt Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða.

Enn fyrr eða 2013 eftir gróðureld­ana sem geisuðu dög­um sam­an í Laug­ar­dal í Ísa­fjarðar­djúpi síðasta sum­ar fóru fram viðræður um sam­einað slökkvilið á norðan­verðum Vest­fjörðum. Þá kom fram að slökkviliðsstjóri Ísa­fjarðar hafi lengi mælt fyr­ir slíkri sam­ein­ingu.

 

DEILA