Reykhólahreppur: leggja til R leið og hafna Þ-H leið

Þeir Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps og Karl Kristjánsson, fyrrverandi oddviti og hreppsnefndarmaður mynduðu meirihluta í skipulags- byggingar- og hafnarnefndar á fundi nefndarinnar í gær og þeir leggja til að „fallið verði frá því að setja Teigskógsleiðina(Þ-H) á aðskipulag Reykhólahrepps. Þess í stað verði niðurstöðum valkostagreingar Viaplans fylgt og farin leið sem tengir Reykhólaþorpið við Vestfjarðaveg 60“ eins og segir í fundargerðinni.

Jóhann Ösp Einarsdóttir, hreppsnefndarmaður  er þriðju nefndarmaðurinn og hún  „telur að brugðist hafa verið við öllum athugsemdum sem borist hafa vegna  aðalskipulagsbreytingarinnar og leggur til að tillögunni verði vísað til sveitarstjórnar til samþykktar.“

Málinu ekki lokið

Fundargerðin með tillögunum fer nú til sveitarstjórnar og verða greidd atkvæði um þær á næsta fundi. Búist var við að fundurinn yrði í þessari viku  en svo varð ekki. Fundur hefur nú verið boðaður á þriðjudaginn í næstu viku, þann 15. október. Í sveitarstjórn eru fimm fulltrúar og hafa þrír þeirra gefið upp afstöðu sína í skipulagsnefndinni og munu því úrslit ráðast á atkvæðum þeirra tveggja sveitarstjórnarmanna sem ekki eru í nefndinni. Þegar sveitarstjórnin ákvað fyrr á árinu að velja þ-H leiðina og setja hana inn  i aðalskipulag greiddu þessir tveir fulltrúar atvæði með Þ-H leiðinni og atkvæði féllu 3:2.

Þeir Ingimar og Karl lögðu fram bókun upp á sex blaðsíður. Þar segir  í upphafi „að  athugasemdir Landverndar ramma mjög vel inn rökin fyrir því að setja Teigsskógsleiðina Þ-H, ekki inn á aðalskipulag Reykhólahrepp.“ Síðan vísa þeir í afstöðu Skipulagsstofnunar sem hafi lagt til aðra leið en Þ-H leið. Þá véfengja þeir mun á kostnaði við leiðirnar og segja þær koma sambærilega út varðandi umferðaröryggi. Vegagerðin er borin þeim sökum í bókuninni að þvinga sveitarstjórnina til þess að samþykkja Þ-H leiðina.

Niðurstaðan í bókuninni er svo dregin saman í lokaorðum hennar:

„Engin þörf er á að setja Teigsskógsleiðina inn á aðalskipulag Reykhólahrepps,
þar sem nánast hver einasti meter nýtur sérstakrar verndar samkvæmt 61.gr.
náttúruverndarlaganna og fráleitt að það sé „brýn nauðsyn“, þvert á móti segir í
samantekt valkostagreiningar Viaplan. „Niðurstöður valkostagreiningarinnar
benda til þess að Reykhólaleið R sé vænlegasti leiðarvalkosturinn. Þegar á
heildina er litið fyrir tæknilega, skipulagslega, umhverfislega og félagslega
þætti sýnir Reykhólaleið R betri niðurstöður en hinir þrír leiðarvalkostirnir“.
Það er því engin brýn nauðsyn fyrir Teigskógsleið, það er hinsvegar brýn
nauðsyn fyrir þorpið á Reykkhólum og Reykhólahrepp allann að farin verði R leið.“

 

DEILA