Patreksfjörður: Breyta gömlu bæjarskrifstofunum í hagkvæmar íbúðir

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um samvinnu við fjölgun nýrra íbúða í sveitarfélaginu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Félagsmálaráðuneytinu.

Verkefnið sem ráðist verður í er að breyta gömlu bæjarskrifstofunum á Patreksfirði í hagkvæmar íbúðir. Gert er ráð fyrir að þannig megi fjölga leiguíbúðum um þrjár til fjórar á svæðinu. Skrifstofur sveitarfélagsins voru fluttar í nýtt húsnæði fyrir ári og hefur gamla húsnæðið frá þeim tíma staðið autt. Samhliða hefur mikill skortur verið á íbúðarhúsnæði í Vesturbyggð og því liggur beint við að skoða hvernig nýta megi gömlu bæjarskrifstofurnar til bæta framboð á íbúðum. Þetta þýðir að gamli fundarsalur bæjarstjórnar gæti innan tíðar orðið að notalegri stofu lítillar aðfluttrar fjölskyldu.

Bætt atvinnuástand hefur aukið eftirspurn eftir leiguhúsnæði í Vesturbyggð. Störfum í sveitarfélaginu hefur fjölgað á síðustu tveimur árum og er það ekki síst vegna vaxandi umsvifa í tengslum við ferðaþjónustu og fiskeldi.

Íbúðalánasjóður mun koma að útfærslu verkefnisins og hefur sjóðurinn ákveðið að leggja sveitarfélaginu til tveggja milljóna króna hönnunarstyrk. Þá mun hann bjóða fram sérfræðiþekkingu starfsmanna sinna sem hluta af tilraunaverkefni sjóðsins til að örva húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni. Eins er stefnt að því að Íbúðalánasjóður fjármagni verkefnið í gegnum nýjan lánaflokk sjóðsins.

„Ég legg ríka áherslu á að stjórnvöld stuðli að húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni. Vesturbyggð er dæmi um svæði þar sem atvinnu er að hafa en skortur á íbúðarhúsnæði stendur atvinnulífinu fyrir þrifum. Fólk vill setjast hér að en skortir þak yfir höfuðið. Úr því þarf að bæta enda allra hagur að atvinnuvegir blómstri um land allt,“ segir Ásmundur Einar.

Hann segir þetta hluta af landsbyggðarverkefni félagsmálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs tengt húsnæðismálum og að fleiri sambærileg verkefni muni líta dagsins ljós á næstunni.