Lagt til að kanna vilja íbúa á Vestfjörðum og ríkisins til sameiningar

Lilja Magnúsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps.

Lilja Magnúsdóttir, sveitarstjórnarmaður í Tálknafirði leggur til við komandi Fjórðungsþing Vestfirðinga, sem hefst á morgun, að kannaður verði vilji íbúa á Vestfjörðum til þess hvaða þjónusta verði til staðar í hverju samfélagi komi til sameiningar sveitarfélaga. jafnframt verði athugað hvað ríkisvaldið er tilbúið til þess leggja af mörkum við sameiningu þeirra.

Lilja að Fjórðungsþingið setji á fót starfshóp sem fái þetta hlutverk. Í tillögunni segir að forgangsatriði varðandi þátt ríkisvaldsins er aukin og bætt þjónusta við íbúa og fyrirtæki og nefnir Lilja sérstaklega bættar samgöngur, öflugt heilbrigðiskerfi, skilvirka stjórnsýslu og aukna fjölbreytni í atvinnulífi fyrir alla íbúa.

Með tillögunni fylgir svohljóðandi greinargerð henni til skýringar og stuðnings þar sem hún leggur áherslu á að sveitarfélög á Vestfjöðrum ræði saman á sínum forsendum en verði ekki þvinguð til sameiningar:

„Í ljósi umræðu í tengslum við þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um sameiningu
sveitarfélaga er ástæða til að horfa til vilja íbúa á Vestfjörðum hvaða ávinning þeir sjá af frekari sameiningu sveitarfélaga á Vestfjörðum. Kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum ber skylda til að hafa hagsmuni íbúa að leiðarljósi í sínum störfum og sameiningu sveitarfélaga verður að vinna í nánu samstarfi við íbúa fjórðungsins.

Markmið sameiningar á fyrst og fremst að vera einföldun stjórnsýslu, bætt þjónusta við íbúa og fyrirtæki á öllum sviðum og aukin skilvirkni stjórnsýslunnar. Jafnframt verður að gæta þess að kröfur um hagræðingu verði ekki til þess að skerða lýðræðisleg áhrif íbúa á samfélag sitt né draga úr þjónustu við íbúa og fyrirtæki. Í  því sambandi má benda á vinnu Austfirðinga við undirbúning og umræður um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austfjörðum þar sem verið er að leita leiða til að tryggja áhrif íbúa á stjórnsýsluna sem best.

Nauðsynlegt er að sveitarfélög á Vestfjörðum fái tækifæri til að ræða saman um sameiginlega hagsmuni, samstarf og/eða sameiningu á eigin forsendum íbúa og fyrirtækja en séu ekki þvinguð í sameiningu á grundvelli íbúatölu sem segir ekkert um möguleika sveitarfélags til að  standa við skuldbindingar sínar. Brýnt er að nýta reynslu af fyrri sameiningu sveitarfélaga á Vestfjörðum og annars staðar á landinu til að nýta okkur það sem vel hefur gengið og forðast að gera sömu mistök aftur sem kunna að hafa verið gerð í fyrri sameiningum.

Jafnframt er nauðsyn að ríkisvaldið tryggi fjármagn til bættra samgangna sem tryggi greiðar samgöngur íbúa við nærsamfélög sín óháð sameiningarmöguleikum. Það sama á við trygga heilbrigðisþjónustu, fjölgun starfa án staðsetningar og aukinn stuðningur við nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi. Leiðarljós vinnuhópsins á að vera hagsmunir Vestfirðinga til framtíðar.“

DEILA