Flugmál: 5% til Vestfjarða

Alls verður 2,4 milljörðum króna varið til viðhalds og endurnýjunar búnaðar flugvalla í grunnneti í fimm ára áætlun fyrir árin 2020 – 2024 sem Sigurður Ingi Jóhannsson Samgönguráðherra kynnti á dögunum. Helmingur fjárins fer til Reykjavíkurflugvallar til yfirborðsviðhalds flugbrauta og hlaða. Um 80 milljónir króna fer til framkvæmda við Akureyrarflugvöll. Um 200 milljónum króna er ráðstafað til Hornafjarðarflugvallar, 170 milljónir króna til Vopnafjarðarflugvallar og 190 milljónir króna til Vestmannaeyja.

Á Vestfjörðum fá tveir flugvellir fjárveitingu. Á næsta ári eru 97,5 milljónir króna ætlaðar til yfirborðsviðhalds flugbrauta og hlaða á Ísafjarðarflugvelli og á árinu 2023 eru 35 milljónir króna til leiðsögu- og ljósabúnaðar á Gjögurflugvelli. Samanlagðar fjárveitingar til Vestfjarða eru um 5% af heildarfjárhæðinni.