Fjölgar á Vestfjörðum. Vesturbyggð nær 1000 íbúum

Þjóðskrá Íslands hefur birt tölur um íbúafjölda í einstökum sveitarfélögum og breytingar frá 1. desember 2018. Á Vestfjörðum hefur orðið lítilsháttar fólksfjölgun á þessu tímabili. Eru íbúar nú 7.084 og er fjölgunin 20 manns eða 0,3%.  Vesturbyggð hefur aftur náð 1.000 íbúa markinu og eru nú 1.003 íbúar í sveitarfélaginu. Fjölgunin nemur 7 íbúum.

Mest hefur fjölgunin mælst hlutfallslega í Kaldrananehreppi frá 1. desember 2018 eða 7,8%. Það er fjórða mest fólksfjölgunin á landsvisu. Árneshreppur fylgir fast á hæla Drangsnesingum. Þar var fjölgunin 7,5% sem er fimmta mesta fjölgunin á landinu frá 1. desember 2018. Þriðja vestfirska sveitarfélagið þar sem mikið hefur fjölgað er Súðavík. Þar varð 5% fjölgun.

Í Reykhólahreppi varð líka fjölgun. Þar bættust 5 íbúar við og er það 1,9% aukning. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði um 1 íbúa og fækkaði um 2 íbúa í Bolungavík og Strandabyggð. Mest varð fækkunin í Tálknafjarðarhreppi. Þar fækkaði um 10 íbúa eða 3,9%. Reyndist það þriðja mesta fólksfækkun á landinu á þessu tímabili. Í Langanesbyggð fækkaði um 4,7% og Hvalfjarðarsveit um 4,5%.

Íbúatalan 1. október 2019 er þá þannig:

Ísafjarðarbær                             3.814

Vesturbyggð                               1.003

Bolungavík                                    944

Strandabyggð                                449

Reykhólahreppur                            262

Tálknafjarðarhreppur                      249

Súðavíkurhreppur                           209

Kaldrananeshreppur                        111

Árneshreppur                                   43

 

DEILA