Arna Lára: skortur á íbúðum með góðu aðgengi

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Í-listans, sem ákvað byggingu Sindragötu 4 með 11 íbúðum af 13 fyrir leigumarkaðinn með stofnframlögum frá Íbúðalánasjóði ,segir að ætlunin hafi verið að uppfylla mikla þörf fyrir nýjar íbúðir með góðu aðgengi fyrir  fatlaða og eldra fólk.

Hún var spurð að því hvernig þeirri þörf yrði mætt fyrst íbúðirnar 11 voru settar á almenna sölu og hvort þörfin hafi verið ofmetin í umsókninni til Íbúðalánasjóð.

„Það er mikil þörf fyrir nýjar íbúðir í sveitarfélaginu og sér í lagi ef sjókvíaeldið verður jafn umfangsmikið eins áætlanir gera ráð fyrir og að það verði áframhaldandi uppbygging í ferðaþjónustu. Í húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar er gert ráð að íbúaþörfin sé 10-25 íbúðir á ári á tímabilinu 2019-2022. Það hefur verið skortur á húsnæði í sveitarfélaginu, bæði á leiguíbúðum og eignaíbúðum, og Sindragatan mikilvæg í því ljósi.  Þær 106 íbúðir sem eru inn í Fastís eiga að uppfylla þörf fyrir þá sem er í þörf fyrir félagslegt húsnæði, og við höfum reyndar getað boðið mun fleirum en þeim sem eru í þörf fyrir félagslegt húsnæði þær íbúðir til leigu. Það hefur verið mikill skortur á íbúðum með góðu aðgengi sem henta eldra fólki og fötluðum, og Ísafjarðarbær á ekki nema eina blokk með lyftu fyrir utan Hlíf 1 svo að ég held að það sé enn fullþörf að byggja meira.“