Sjávarútvegsráðherra: mikilvægt að Hafrannsóknarstofnun njóti trausts

Kristjan Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra sagði í ávarpi sínu á fyrsta ársfundi Hafrannsóknarstofnunar í síðustu viku að Hafrannsóknarstofnunin gegni lykilhlutverki við nýtingu auðlinda hafs og vatna og þar með gegndi hún lykilhlutverki í íslensku samfélagi.  2Það er mikilvægt fyrir slíka stofnun að njóta trausts og virðingar. Hafrannsóknastofnun þarf um leið að geta þolað gagnrýni „.

Þá sagði ráðherrann:

„Því er um leið mikilvægt fyrir stofnun eins og Hafrannsóknastofnun að eiga í virku og málefnalegu samtali við þá sem hún þjónar; sjávarútvegi, fiskeldi, veiðréttarhöfum – raunar öllu samfélaginu. Að stofnunin sé opin fyrir gagnrýni og ábendingum. Afgreiði ekki slíkt sem nöldur eða væl – heldur tækifæri til að leiðrétta eða leiðbeina. Þannig næst meiri sátt um að ljá hinum vísindalega þætti jafn mikið vægi og við viljum og þar þurfa allir – meðal annars stofnunin sjálf – að leggja sitt að mörkum.“

Þá vék ráðherrann að loftslagbreytingum og sagði allar þjóðir standa frammi fyrir miklum áskorunum sem leiða af loftslagsbreytingum. nefndi hann sérstaklega breytingar sem kynnu að verða hér við land.

„Breytingum á hitistigi sjávar í kringum landið fylgja margvíslegar áskoranir sem við þekkjum. Með hlýnandi sjó höfum við séð hvernig ýsan hefur flutt sig í verulegum mæli norður fyrir land og skötuselur einnig fært sig norður með vesturlandinu. Það sem veldur okkur þó mestum höfuðverk að þessu leyti er breytt hegðun loðnunnar.“

Sagði hann að lokum að það væri stórmál fyrir íslenskan sjávarútveg, sem byggir allt sitt á lífríki hafsins, að við öðlumst meiri skilning á þessum breytingum.

 

 

DEILA