Rússneska fyrirtækið Polar Sea+ kaupir saltfiskvinnslu frá hátæknifyrirtækinu Skaginn 3X

Skaginn 3X hefur skrifað undir tímamóta samning við rússneska fyrirtækið Polar Sea+, sem er í eigu útgerðarrisans Norebo. Samningurinn felur í sér smíði og uppsetningu á saltfiskvinnslu í Murmansk, Rússlandi.
Áætlað er að uppsetning hefjist snemma árs 2020. Búnaðurinn er hannaður með gæði og góða meðhöndlun hráefnis að leiðarljósi, þar sem fyrirtækið ætlar sér að flytja út hágæða vöru inn kröfuharða markaði í suður Evrópu, Suður Ameríku og Afríku.
„Þetta verður stærsta saltfiskframleiðsla sinnar tegundar í norður Atlantshafi með framleiðslugetu allt að 50 tonn á dag.“ Segir Pétur Jakob Pétursson, sölustjóri Skagans 3X í Rússlandi.
„ Polar Sea+ hafði samband við okkur í leit sinni að nútíma lausnum sem myndu standa undir þessari miklu framleiðslugetu sem um ræðir. Okkar svar var að hanna heildarlausn þar sem gæði og gott flæði framleiðslunnar væru í aðalhlutverki“, segir Pétur.
Lausnin samanstendur af RoteX Supreme uppþýðingarkerfi, snyrtilínu, pækilblöndun og þurrsöltun.
Kerfið uppfyllir nútíma kröfur þegar horft er til vinnuaðstæðna og öryggis starfsmanna. Þá sparar það orku og vatn og stuðlar að aukinni nýtingu.

Áframhaldandi samstarf
Þetta er ekki fyrsta verkefnið sem Skaginn 3X vinnur fyrir Polar Sea+ því áður hafa fyrirtækin unnið saman að hvítfiskverksmiðju sem er staðsett í Murmansk. Verksmiðjan er í fremstu röð sinnar tegundar í norður Atlantshafi og framleiðir hinar ýmsu tegundir af bæði ferskum og frosnum hágæða afurðum.
„Við ákváðum að vinna með Skaganum 3X þar sem þeirra nýsköpun, vörur og lausnir hafa skilað okkur framúrskarandi gæðum á hráefni“ segir Vladimir Zagorovsky, framkvæmdarstjóri Polar Sea+.

DEILA