Mikill stuðningur við ákvæði um auðlindaákvæði og persónukjör

Fram kemur í nýbirtri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands mikill stuðningur við ákveðnar breytingar á stjórnarskránni. Hins vegar er lítill stuðningur við nýja stjórnarskrá. Þrjátíu og sjö prósent svarenda eru ánægðir með núverandi stjórnarskrá en 27% óánægðir.

Könnunin er unnin fyrir Forsætisráðuneytið. Þegar spurt er um afmarkaðar tillögur kemur fram að landsmenn eru í meginatriðum sáttir við núverandi fyrirkomulag við kosningu á forseta Íslands eða 65-70%.

Nærri 90% svarenda vilja fá ákvæði í stjórnarskrána um náttúruauðlindir. Um 2/3 vilja fá breytt ákvæði í stjórnarskrána um það hvernig breytingar á henni eru ákveðnar, svo sem með þjóðaratkvæðagreiðslu eða með auknum meirihluta á þingi. Einnig vilja 2/3 svarenda að þjóðaratkvæðagreiðslur verði haldnar oftar. Þær geti komið þannig til að forsetinn vísi máli til þjóðarinnar (86%), almennir kjósendur kalli mál til sín (75%) eða að minnihluti Alþingis geti vísað máli í þjóðaratkvæði (50%). Þá vilja 74% að vægi atkvæða sé jafnt og 73% vilja að persónukjör verði tekið upp í auknum mæli.

Loks kemur fram að ekki er mikill áhugi fyrir því að taka þátt í umræðufundum á vegum Forsætisráðuneytisins sem halda á í framhaldi af könnuninni. Aðeins 29% vilaj taka þátt en 71% hafa ekki áhuga á því.

Könnunin fór  fram frá júlíbyrjun til 12. september. Svarhlutfall í 1500 manna úrtaki úr þjóðskrá var 42% en 50% úr netpanel með 3000. Samtals var svarhlutfallið 48%.

DEILA