Flateyri: Fimm umsóknir um Byggðastofnunarkvótann

Aldan ÍS47 við bryggju á Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Umsóknarfrestur um kvóta Byggðastofnunar á Flateyri rann út á föstudaginn. Fimm umsóknir bárust. Verið er að yfirfara umsóknir. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvenær ákvörðun verður tekin.

Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun voru þær frá eftirtöldum aðilum:

  • Fiskvinnslunni Íslandssögu o.fl.
  • WSG Trading
  • Walvis o.fl.
  • West Seafood o.fl.
  • ÍS 47 ehf. o.fl.

Með Íslandssögu á Suðureyri standa Vestfirska í Súðavík, Áróra Seafood og  Klofningur Suðureyri að umsókninni samkvæmt upplýsingum frá Óðni Gestssyni framkvæmdastjóra Íslandssögu.

WSG Trading er fyrirtæki í Garðabæ og stjórnarmaður þess er Wendy Snæland Guðbjartsson. Hún er einnig skráð fyrir öðru fyrirtæki WSG Þingeyri, sem skráð er í Neðsta Hvammi í Dýrafirði, en ekki kemur fram hvort það fyrirtæki standi að umsókninni á Flateyri.

Walvis er í eigu Þorgils þorgilssonar á Flateyri og með Walvis munu vera samkvæmt heimildum Bæjarins besta fyrirtæki í eigu Gunnars Torfasonar, Ísafirði, Kristjáns Andra Guðjónssonar, Ísafirði og Bjartmarz ehf sem gerir út bátinn Ragnar Þorsteinsson ÍS 121.

West Seafood var aðili að samningi Byggðastofnunar sem var rift fyrr á árinu vegna vanefnda. Það er nú í samstarfi við fyrirtæki sem á bátinn Viggi ÍS 9.

ÍS 47 er í eigu  Gísla Jóns Kristjánssonar, Ísafirði og var einnig aðili að fyrri samningi.

Byggðastofnun hefur 400 þíg tonna kvóta til umráða og auglýsti hann til afnota í sex ár.

DEILA