Á að svelta sveitarfélög til hlýðni?

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík  hefur sent þingmönnum og ráðherra Norðvesturkjördæmis bréf um fyrirhugað átak ríkisstjórnarinnar í sameiningu sveitarfélaga og birtir það á vefsíðu Súðavíkurhrepps.

Í bréfinu gerir hann grein fyrir vi hvernig málið lítur við íbúum Súðavíkurhrepps. Nefnir hann til dæmis að samgöngur um Súðavíkurhlíð batna ekkert við sameiningu, þjónusta í Súðavík muni versna við sameiningu og að fyrirhuguð bygging og rekstur á kalkþörungaverksmiðu í Súðavík, sem muni skapa 35-50 störf muni verða í talsverðri klemmu vegna sameiningaráformanna.

Spyr Bragi þingmennina hvort og þá hvernig þeir telji að sveitarfélögin á Vestfjörðum, sem öll nema eitt eru undir 1000 íbúa markinu,  verði betur sett eftir sameiningu. Spyr hann meðal annars hvort ætlunin sé að svelta sveitarfélögin til hlýðni með því að draga úr framlögum Jöfnunarsjóðsins.

Bréfið í heild:

 

 

Sæl verið þið öll, þingmenn og ráðherrar.

Eins og ykkur er kunnugt lá í samráðsgátt þingsályktunartillaga Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurðar Inga Jóhannsonar, um málefni sveitarfélaga – stefnumótun til fimm ára.

Í þingsályktun eru tillögur að breyttu sveitarstjórnarstigi að því leyti að tilvist þeirra markast af fjölda íbúa; 250 íbúar frá og með 2022, 500 íbúar árið 2024 og 1000 íbúar árið 2026. Er þetta allt í nafni eflingu sveitarstjórnarstigsins og leiðarljósið er sjálfbærni. Þingsályktun byggir á niðurstöðum starfshóps skipuðum af ráðherra, en vinnan kallast grænbók. Að nafninu til var víðtækt samráð að baki þeirri vinnu og mætti undirritaður til samráðsfundar á Ísafirði sl. vor.

Undirritaður er Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps frá og með 1. maí 2019. Þann 1. janúar 2019 voru skráðir 204 íbúar í hreppnum og er þar um 195 þeirra í þéttbýli. Næsta byggð er Ísafjarðarbær, um 21 km landleiðina, með um 3800 íbúa sem fletir búa við Skutulsfjörð í Ísafjarðarbæ. Framantalið eru upptalningar á staðreyndum sem upplýsa ekki mikið, en varða þó þetta erindi til ykkar.

Milli Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps liggur á landleiðinni mörk sveitarfélagana, á Súðavíkurhlíð. Í venjulegu tíðarfari er hlíðinni lokað að vetri til all nokkur skipti, vegna hættu á ofanflóðum og grjóthruni. Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps fer með almannavarnir í hreppnum og hefur m.a. það hlutverk að loka hliðnu um hlíðina til að koma í veg fyrir umferð þegar aðstæður leyfa hana ekki. Í sumar hafa farið fram og standa enn yfir framkvæmdir á hlíðinni, um hluta þess kafla sem talinn er erfiðastur. Er verið að sprengja berg, flytja grjót og breikka veginn og hefur stálþil verið rekið í vegkant hluta leiðarinnar til þess að hindra óheftan kraft ofanflóða og grjóthruns. Hér fyrir neðan gefur að líta nokkrar myndir frá hlíðinni, en allt eiga þær sameiginlegt að finnast á leitarvélinni google.is þegar flett er upp myndaniðurstöðum fyrir Súðavíkurhlíð. Jafnframt koma upp fréttir af ofanflóðum, bílslysum og tilkynningum um lokun hlíðarinnar á ýmsum miðlum.

frétt bb.is bílvelta

frétt www.bb.is framkvæmdir

frétt ruv.is lokun

frétt ruv.is snjóflóð á hlíðinni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt til með þessari þingsályktun að, í samráði vði Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, verði sveitarfélög „hvött“ til sameiningar, þau sem ekki ná framangreindum mörkum. Mun þeim boðið fjármagn til verksins við aðlögun stjórnsýslu vegna sameiningar, en boðað er að markaður verði peningur úr sjóðnum. Sveitarfélög fá allt að 594 milljónir til verksins á 5 ára tímabili, gangist þau undir þetta, en misjanflega verði í lagt eftir skuldsetningu þeirra. https://www.bb.is/2019/09/rikisstjornin-23-milljardar-krona-til-sameiningar-sveitarfelaga-a-vestfjordum/

Þannig er Súðavíkurhreppi ætlað um 109 milljónir, enda sveitarfélagið í raun ekki skuldsett þar eð lítt hefur verið framkvæmt í hreppnum undanfarin ár. Um það vitna ársreikningar og unnt að sjá það af opinberum gögnum. Það er ekki að furða að þau sveitarfélög, sem í senn eru skuldsett og jafnframt ná yfir 1000 íbúa markið sjái hag í því að innlima skuldlaus lítil sveitarfélög, enda fylgir því ríkur heimanmundur. Á sama tíma eru settar í uppnám stjórnsýslueiningar líkt og í Súðavíkurhreppi sem hafa haldið að sér höndum með skuldsetningu og hafa áform um sókn og eflingu. Það er öllum ljóst sem þekkja til þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa sameinast, yfir fjöll og vegleysur, að þar hefur stjórnsýslan orðið eftir í öðru eða einu þeirra og hagur versnað til muna í þeim fjarlægari sem hafa misst stjórnsýslu úr sinni sveit. Einn stærsti vinnuveitandinn mun fara úr Súðavík, Súðavíkurhreppur, skólahald sett í uppnám og sú litla þjónusta sem ekki er aðkeypt.

En hvernig stendur Súðavíkurhreppur. Sveitarfélagið hefur lýst yfir samstarfsvilja vegna uppbyggingar atvinnu í hreppnum, inn á Álftafirði skammt innan þorpsins Súðavíkur. Er það að rekja aftur til ársins 2014 en ferlið er að vonum langt. Er það kalkþörungaverksmiðja sem fyrrtækið Marigold er eigandi að – móðurfélag Íslensks kalkþörungs. Uppbygging verksmiðju mun gefa af sér stöðug 35-50 stöðugildi, samkvæmt áætlunum og upplýsingum félagsins, en mun leiða til þess að grundvöllur verður fyrir fleiri störf og stöðugildi í Súðavík sem muni gagnast öllu sveitarfélaginu. Verksmiðjan ein og tilvist hennar í hreppnum mun geta gefið af sér afkomu sem nægir til reksturs sveitarfélagsins og yrði það áfram miklu meira en sjálfbært þannig að notuð séu þau hugtök sem er að finna í þingsályktun og vinnu grænbókar. Áform eru uppi um að reisa hér húsnæði og undirbúa það sem telst í daglegu tali til innviðauppbyggingar og mönnum er tamt að nefna. Á það við um slökkvilið, verslun- og þjónustu vegna starfsfólks auk allra annarra tilfallandi viðhalds og þjónustureksturs.

Það er engin launung að stefnumörkun sem felst í þessari þingsályktun setur þessi áform hér í talsverða klemmu. Skipulagsvinna er afgreidd frá Skipulagsstofnun er að fara í auglýsingarferli auk þess sem hafnarmannvirki eru á samgönguáætlun. Þessi vinna fari þannig í hít verri afkomu sveitarfélags.  Á sama tíma og sveitarfélög á Vestfjörðum geta þegið það fé sem fæst úr Jöfnunarsjóð til þess að „innlima“ Súðavíkurhrepp er það ljóst að ekkert þeirra er þess umkomið að halda hér uppi þjónustu við þá sem hér búa á heilsárs grundvelli. Nægir að nefna þar Súðavíkurhlíðina og ættu þessar myndir allar að tala sínu máli, þó aðeins sé 21 km milli kirkju Súðavíkursóknar að kirkju þeirra í Ísafjarðarbæ. Það er skemmst frá að segja að þegar síðast var borin upp tillaga um sameiningu þessara sveitarfélaga hér á norðanverðum Vestfjörðum var sameining felld í Súðavíkurhreppi.

Þrátt fyrir að í því geti verið akkur að sameina sveitarfélög á Íslandi hlýtur að skjóta skökku við að hafa það að markmiði að fækka þeim til þess eins að þau verði færri. Ekki hefur veirð sýnt fram á að hreppur með íbúa um 1000 verið sjálfkrafa hagstæðari eða betur rekin eining, einkum þegar útkoman er fjölkjarnasveitarfélag. Má hafa það í huga að ef Vesturbyggð færi í sameiningu þarf aðeins um tvo íbúa í dag til þess að ná 1000 íbúa marki en sveitarfélagið fengi um 441 milljónir til verksins miðað við reiknaða niðurstöðu. Hvernig hyggst ráðuneyti sveitarstjórnarmála bregðast við þeim sem ekki ná tilsettu marki innan tilskilins frests? Verður það gert með því að „svelta sveitarfélögin“ til hlýðni með því að draga úr framlagi Jöfnunarsjóðsins? Er heimild til slíks með fulltingi sjóðsins? Verður það gert með fulltingi framkvæmdavalds? Fyrir þá sem vita hvers vegna Jöfnunarsjóður sveitarfélaga var stofnsettur ætti að vera fyrirvari við að beita honum með þessum hætti.

Það er von undirritaðs að fá viðbrögð við þessu bréfi og um leið afstöðu ykkar til þess sem lagt verður fyrir þing til samþykktar, höfnunar eða svæfingar – þingsályktun um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Okkur þykir hér í Súðavíkurhreppi lítt hafa komið frá ykkur, þingmönnum kjördæmisins, en öll sveitarfélög Vestfjarða eru þessu marki brennd, að ná ekki 1000 íbúa viðmiði við núverandi aðstæður utan Ísafjarðarbæjar.

Undirritaður æskir þess, ef unnt er, að fá afstöðu ykkar og skoðun, hvort það samrýmist hlutverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að marka stefnu og veita fé í fækkun sveitarfélaga, þau er varða um eða innan við 5% íbúa landsins, undir þeim formerkjum að efla þessi sveitarfélög.

Hvort og þá hvernig þið teljið sveitarfélög á Vestfjörðum betur í stakk búin til þess að starfrækja hlutverk sitt og þjónust íbúa sína með því að slá þeim saman. Íbúar Vestfjarða ná ekki 10000 í heildina og því ljóst í huga undirritaðs að þar næst aldrei stærðar eða fjöldahagræðing. Vegalengdir um Djúp munu áfram verða þær sömu og Súðvíkurhlíð jafn erfið umferðar að vetri og endranær, þrátt fyrir góða viðleytni í þá átt að gera hana öruggari. Hvernig verða samgöngumál er varða Súðavíkurhrepp leyst, ef sameining verður við sveitarfélagið Ísafjarðarbæ eða Bolungarvíkurkaupstað þannig að unnt sé að þjónusta svæðið hér með fullnægjandi hætti og vera hreppnum til eflingar?

Það er ekki hald manna hér í Súðavíkurhreppi að ekki megi leggja til hagræðingu með sameiningu sveitarfélaga. Það segir sig sjálft að það næðist víða um land, einkum þegar sveitarfélög liggja saman, samnýta alla þjónustu meira og minna og samgöngur með þeim hætti að unnt er að sækja þjónustu allt árið um kring. Hér vekur þó furðu aðferðafræðin og sá fögnuður sem virðist endurspegla niðurstöðu um verkefnið, afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga á nýafstöðnu aukaþingi svo eitthvað sé nefnt. Það er undirrituðum til efs að þeirri fækkun starfa i hreppnum sem óhjákvæmilega fylgir þvingaðri sameiningu við sjálfbært sveitarfélag verði mætt með því að fjölga störfum hins opinbera af hendi ríkisins eins og boðað hefur verið. Það getur hver og einn velt fyrir sér hvernig er um efndir slíkra starfa á landsbyggðinni allri og hversu vel og hratt það hefur gengið að koma störfum af hendi íslenska ríkisins á stofn í fámennum sveitarfélögum.

Með kveðju,
Bragi Þór

 

DEILA