Vestfirski fornminjadagurinn – Vinna að skráningu örnefna með nýrri tækni

Eyþór Eðvarðsson segir frá af innlifun við verbúðina í Staðardal. Mynd : Act Alone

Búið er að kortleggja örnefni í Súgandafirði og víðar á Vestfjörðum með því að nýta ljósmyndir teknar með flugdrónum og merkja inná myndirnar örnefni á viðkomandi staði. Kerfisbundin skráning örnefna með þessum hætti er meðal þess sem fram kom á Vestfirska fornminjadeginum á Suðureyri á laugardaginn. Björn Birkisson bóndi í Botni í Súgandafirði var meðal fyrirlesara á fornminjadeginum og kynnti þar aðferðir og afrakstur verkefnisins sem unnið hefur verið í Súgandafirði. Margir hafa hug á að nýta sér þessa aðferð til skráningar örnefna á ljósmyndir. Þeir sem áhuga hafa geta haft samband við bændur í Botni, Helgu Guðnýju Kristjánsdóttur og Björn Birkisson eða gegnum feisbókarsíðu Fornminjafélags Súgandafjarðar.

Vestfirski fornminjadagurinn var haldinn í annað sinn síðastliðinn laugardag á Suðureyri. Það er hópur sem nefnir sig Áhugafólk um fornleifar á Vestfjörðum sem stendur fyrir deginum. Veg og vanda að dagskránni hafði Súgfirðingurinn Eyþór Eðvarðsson og samstarfsmenn hans í Fornminjafélagi Súgandafjarðar. Það var árrisull hópur áhugafólks um sögu og mannlíf á Vestfjörðum sem var saman kominn á Suðureyri og hlýddi þar á sex erindi sem tengjast sögu og minjum á Vestfjörðum. Að lokinni dagskrá hélt hópurinn út í Staðardal og kynnti sér verbúðina sem þar er risin fyrir tilstuðlan Fornminjafélagsins.

Fyrirlesarar voru auk Björns Birkissonar, þeir Valdimar Halldórsson staðarhaldari á Hrafnseyri sem fjallaði um Hrafn Sveinbjarnarson goðorðsmann og lækni á Hrafnseyri, Sigurður Pétursson sagnfræðingur útskýrði þéttbýlisþróun á Vestfjörðum og hvers vegna hún hófst ekki fyrr en á 19. öld. Jón Jónsson þjóðfræðingur á Hólmavík flutti erindi um aftökustaði á Vestfjörðum, ástæður dauðadóma og framkvæmd þeirra. Dr. Matthias Egeler frá Þýskalandi fjallaði um keltnesk áhrif á landnámsöld og örnefni sem benda til tengsla við skosku eyjarnar. Þá sagði Eyþór Eðvarðsson frá því framtaki Fornminjafélags Súgandafjarðar, að reisa landnámsskála í landi Botns í Súgandafirði. Búið er að hlaða veggi skálans, sem er tilgátuhús byggt á skála sem fannst við fornleifauppgröft á Grélutóftum neðan við Hrafnseyri í Arnarfirði.

 

DEILA