Vegagerðin um Ófeigsfjarðarveg: erum að taka undir viðhorf Vesturverks ehf

Vegagerðin er með þessum orðum að taka undir þá málsmeðferð sem fram hefur komið hjá Vesturverki ehf að fara ekki fram með offorsi gegn landeigendum segir Stefán Erlendsson lögfræðingur Vegagerðarinnar í samtali við Bæjarins besta.

Í bréfi Vegagerðarinnar til Samgönguráðuneytisins 16. ágúst er veitt er umsögn vegna stjórnsýslukæru  Guðmundar Arngrímssonar f.h. hluta landeigenda vegna þess að Vegagerðin framseldi veghald á Ófeigsfjarðarvegi til Vesturverks. Þar segir að Vegagerðin leggist ekki gegn því að ráðuneytið fresti framkvæmdum í landi Seljaness meðan ráðuneytið er að afgreiða sérstaka beiðni um frestun framkvæmda á meðan kæran er til meðferðar.

Stefán segir að Vegagerðin hafi tekið eftir því að Vesturverk hafi tilkynnt um breytingu á röð framkvæmda og hyggist færa sig í land Ófeigsfjarðar næstu daga í stað þess að fara inn í Seljaneslandið og að það hafi verið skýrt með því að fyrirtækið vildi ekki fara fram með offorsi gegn þeim landeigendum Seljaness sem mótmæla vegabótunum. Þessi klausa í bréfinu hafi verið sett inn til þess að í raun að taka undir þetta og styðja við þann vilja til friðsamlegrar lausnar. Það þarf að líka að gæta að hagsmunum Vesturverks í þessu sambandi segir Stefán og á það bendum við líka. Hann sagðist eiga von á niðurstöðu ráðuneytisins innan fárra daga.

Í bréfinu er Vegagerðin einkum að rökstyðja þá afstöðu sína að hún hafi fullan rétt til þess að framselja veghaldið á veginum til Vesturverks eins og gert var með samningi dags. 19. júní 2019.