Tónlistarveisla við norðanvert Djúp um verslunarmannahelgina

Verslunarmannahelgin við norðanvert Djúp var auðug af tónlistarviðburðum. Auk tónleika í Steinshúsi og minningartónleika um Ásgeir Ingvarsson í Dalbæ á Snæfjallaströnd voru þeir Rafnar og Framfari með skemmtilega tónleika í Dalbæ laugardaginn 3. ágúst. Þeir Andri Freyr Arnarsson og Rafnar Orri Gunnarsson fluttu m.a. frumsamda tónlist sem gerð var fyrir geimferðakvikmyndina Cosmic Birth sem frumsýnd var nýlega. Einnig mátti m.a. heyra á tónleikunum í Salbjörgu Jóhannsdóttur ljósmóður frá Lyngholti á Snæfjallaströnd kveða „Róum við til landanna“ í upptöku sem Árnastofnun gerði 1970 og má heyra á vef Snjáfjallaseturs.

Unnur Malín Sigurðardóttir hélt svo frábæra tónleika í Dalbæ sunnudaginn 4. Ágúst. Unnur Malín hefur haldið tónleika vítt og breitt um landið, auk þess sem hún er nýkomin úr tónleikaferð um Ítalíu þar sem hún kynnti tónlist sína fyrir ítölskum áheyrendum. Hljóðheimur Unnar Malínar er fjölbreyttur og áhugaverður, dramatískur og fyndinn, stundum bæði í senn. Lögin sem Unnur flutti voru fjölbreytt, sum frumsamin en líka eftir aðra, m.a. Sigvalda Kaldalóns. Þetta var lokaviðburður verslunarmannahelgarinnar við norðanvert Djúp.

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða styrkti viðburðina.

DEILA