Strandabyggð: „Fámennt en góðmennt í sveitarstjórninni“

Frá Hamingjudögum á Hólmavík fyrir nokkrum árum. Miill fjöldi í Kirkjuhvammsbrekkunni.

Eins og fram kom í frétt hér á bb.is eru engir varamenn fyrir hendi í fimm manna sveitarstjórn Strandabyggðar. Tvö úr þeim 10 manna hóp sem kosinn var í persónukjöri fyrir rúmu ári hafa flutt á brott, nú síðast fyrrverandi oddviti sveitarstjórnar. Þrjú eru í leyfi vegna veikinda eða af persónulegum ástæðum. Jón Jónsson þjóðfræðingur á Kirkjubóli kemur nú inn sem aðalmaður, en var kjörinn 4. varamaður í kosningunum. Hann segir enga ástæðu til að örvænta, þótt enginn sitji á varamannabekknum í bili:

„Þegar ég dett aftur út úr sveitarstjórninni, sem vonandi verður sem allra fyrst, þá mun öll sveitin fagna ógurlega og ég sjálfur líka. Það þýðir nefnilega að einhver af þeim sem nú eru í leyfi hafi yfirstigið veikindi og vanda og yfir slíku gleðst allt það góða fólk sem hér býr.“

Jón segir að síðustu misseri hafi stemmningin á svæðinu ekki verið eins mikil og góð og hún þyrfti að vera. Ýmislegt hafi þar áhrif, mikil fólksfækkun hafi orðið á stuttum tíma og þeir sem eftir sitja sjá eftir fólkinu sem fer. Rekstrarerfiðleikar rækjuverksmiðjunnar Hólmadrangs og lækkun afurðaverðs til bænda hafa líka legið þungt á íbúum. Strandamenn hafi einnig verið sviknir um vegabætur sem lofað hafði verið á síðasta ári, bæði á Innstrandavegi og Veiðileysuhálsi, og slíkt sé alltaf sérlega svekkjandi.

„Ekki bætir svo úr skák að grassprettan hefur alls ekki verið nógu góð vegna þurrka í sumar. Breytingar hafa líka verið miklar í sveitarstjórn og nefndum, þótt það sé nú kannski helst sveitarstjórnarfólkið sjálft sem hefur áhyggjur af því. Og gufubaðið og barnalaugin í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík hafa verið biluð,“ segir Jón og bætir svo við: „Svo er örugglega eitthvað bank í ofnunum, víða í sveitarfélaginu. Hver á að laga það?“

„Ég tel að einmitt núna sé tækifæri til að spyrna við fótum, segja hingað og ekki lengra, þótt botninum varðandi íbúatöluna sé kannski ekki alveg náð enn,“ segir Jón. „Hólmadrangur hefur yfirstigið erfiðleikana og vonandi eflist nú reksturinn og vinnslan. Fréttir frá Kaupfélaginu á Hólmavík herma að þar komi þúsundir viðskiptavina daglega og eitthvað er um að fólk flytji á svæðið, það er mótvægi við þá sem flytja burt. Lömbin sýnast væn út í haga og loksins hefur rignt eitthvað svo vatnsbúskapurinn batnar. Það eru líka ríkulegar ástæður fyrir fólk að velja að búa á Ströndum, m.a. er ljósleiðaravæðing í gangi, húsnæði ódýrt þegar slíkt er á annað borð í boði, leikskólinn tekur inn 9 mánaða börn og boðið er upp á mikla aðstoð og þjónustu í skólakerfinu.“

Jón segir mikilvægt að grípa til beinna mótvægisaðgerða varðandi fólksfækkun og að sveitarstjórn Strandabyggðar hafi einmitt nýlega samþykkt að bregðast við af krafti og takast á við vandann með margvíslegum hætti og tveimur hrútshornum. „Svo má ekki gleyma því að hér er líka góður og rótgróinn hópur af fólki sem er ekki að fara neitt. Mér líst vel á planið hjá Bolvíkingum, markmiðið 1000+, þeir ætla að fjölga íbúum um 50 manns á nokkrum árum. Ég held að við ættum að setja okkur svipað markmið hér og setja saman kynngimagnað aðgerðaplan um að bæta stemmningu, efla lífsgæði og fjölga íbúum. Gætum gefið póstnúmerinu okkar vægi í slíku átaki, Strandabyggð 510+,“ segir Jón að lokum.

DEILA