Ófeigsfjarðarvegur: eina vegaframkvæmdin sem Minjastofnun hefur stöðvað

Í svörum Minjastofnunar við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að lagfæringar á Ófeigsfjarðarvegi eru einu vegaframkvæmdirnar á undanförnum árum sem stofnunin hefur stöðvað. Ástæðan er að Árneshreppur hafði ekki óskað eftir umsögn Minjastofnun Íslands áður en framkvæmdaleyfi til lagfæringar á veginum var gefið út, eins og skylt er skv. 13. gr. skipulagslaga, og því lá afstaða stofnunarinnar ekki fyrir þegar framkvæmdin hófst.

Hins vegar hefur Minjastofnun stöðvað annars konar framkvæmdir af ýmsu tagi og ná þau til allra landshluta segir í svari stofnunarinnar.

Farsælt verklag

Vegaframkvæmdir eru oft annað hvort matsskyldar framkvæmdir eða að leita þarf álits Skipulagsstofnunar á því hvort þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum.  Minjastofnun fær mál er varða vegagerð til umsagnar frá Skipulagsstofnun.  Hafi fornleifaskráning ekki farið fram á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði fer Minjastofnun fram á að slík skráning sé gerð.  Ef í ljós kemur að fornleifum kann að stafa hætta af vegagerð er reynt að hnika veglínunni til þannig að fornleifarnar raskist ekki.  Minjastofnun ákveður til hvaða mótvægisaðgerða skuli gripið í hverju tilfelli fyrir sig.  Þetta verklag hefur reynst farsælt og Minjastofnun Íslands er ekki kunnugt um að fornleifar hafi raskast vegna vegagerðar á undanförnum árum nema að undangenginni rannsókn á þeim.

 

Breikkun Þingvallavegar

Spurt var um breikkun Þingvallavegar sem nú stendur yfir. Í svari Minjastofnunar segir að árið 2017 hafi fornleifar verið skráðar vegna fyrirhugaðrar breikkunar Þingvallavegar.  „Fornleifafræðistofan sá um skráningu fornleifanna.  Niðurstöðurnar birtust í skýrslu,  Fornleifaskráning í Þingvallaþjóðgarði vegna mats á umhverfisáhrifum breikkunar vegar. Minjastofnun veitti umsögn um fyrirspurn um matsskyldu framkvæmdarinnar þar sem gerðar voru tillögur um hvernig staðið skyldi að breikkun vegarins þar sem fornleifar eru í nágrenni hans.  Tekið var tillit til þessara tillagna.  Á einum stað, við Gjábakka, varð ekki komist hjá raski á garðlagi og tveimur þústum sem talið var að kynnu að vera leifar gamalla mannvirkja.  Minjastofnun fór fram á að garðlagið og þústirnar yrðu rannsakaðar með fornleifauppgreftri og var það gert í sumar áður en framkvæmdir á þessu svæði hófust.“

 

DEILA