Hafró: samningur við Radcliffe ekki vanhæfisástæða

Frá undirritun samningsins við Radcliffe. Mynd: hafro.is.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar segir að stofnunin vinni fyrir ýmsa aðila og veitir þeim ráðgjöf. Niðurstaða slíkrar vinnu sé birt í skýrslum eða vísindaritum og tali sínu máli. Hann segir að samningurinn við Radcliffe um rannsóknir á laxinum valdi ekki vanhæfi stofnunarinnar gagnvart fiskeldisfyrirtækjum.

Bæjarins besta sendi Hafrannsóknarstofnun fyrirspurn um samkomulagið við Englendinginn Radcliffe þar sem hann kostar rannsóknir á laxastofninum á Norðausturlandi. Spurt var hvort samkomulagið samrýmist stöðu og hlutverki stofnunarinnar varðandi laxeldi í sjó, en stofnuninni er ætlað í nýjum lögum veigamikið hlutverk og hefur afgerandi áhrif á það hvort laxeldið verði leyft í Ísafjarðardjúpi.

Svör Sigurðar í heild voru þessi:

„Hafrannsóknastofnun vinnur fyrir ýmsa aðila rannsóknarverkefni og veitir þeim ráðgjöf.

Þessir aðilar eru t.d. fiskeldisfyrirtæki, veiðifélög, útgerðarfyrirtæki, sveitafélög, aðrar opinberar stofnanir og stjórnvöld, ýmsa framkvæmdaaðila svo sem orkufyrirtæki, Vegagerðina og fleiri.

Niðurstöður rannsóknavinnunnar er alltaf gefin út í skýrslum stofnunarinnar eða í vísindaritum. Aðalmálið er að niðurstöður séu birtar og þær tali sínu máli. Ef stofnunin gætir þess ekki er illa komið fyrir trúverðugleika hennar. Þar með geta aðrir líka skoðað niðurstöðurnar og lagt sitt mat á þær og túlkun þeirra.

Það er mikill misskilningur að það að fá styrk til rannsókna og til að kosta doktorsnema frá veiðiréttarhafa geri okkur vanhæfa að vinna fyrir fiskeldisfyrirtæki. Sama gildir um stuðning frá fiskeldinu það gerir okkur ekki vanhæf að vinna fyrir veiðiréttarhafa þó svo að þessir aðilar takist á núna um ólíka hagsmuni. Það er okkar að benda á farsælar lausnir svo að báðir aðilar geti starfað.

Það er einfaldlega okkar hlutverk lögum samkvæmt að stunda þessar rannsóknir í samvinnu við atvinnugreinarnar og veita þeim ráðgjöf. Gæði ráðgjafarinnar byggir á góðri þekkingu sem vex með auknim rannsóknum.“

DEILA