Flateyri: Byggðastofnun riftir samningi um byggðakvóta

Byggðastofnun rifti samningi um aukna byggðafestu á Flateyri sem gerður var 2018 með formlegu bréfi dags. 1. ágúst þar sem svo verulegir sannmarkar væru á framkvæmd samkomulagsins.

Áður hafði Byggðastofnun gefið samningsaðilum kost á að andmæla áformum um riftingu samningsins og að fengnum svörum þeirra var tilkynningin send út. Samningsaðilar eru auk Byggðastofnunar, West Seafood ehf, Hlunnar ehf og ÍS 47 ehf.

Byggðastofun segir í bréfinu um ástæður riftunarinnar að fyrir liggi að veruleg vanhöld hafi verið á greiðslum frá West Seafood ehf til Hlunna ehf og ÍS 47 ehf vegna landaðs afla til vinnslu.

Ógreidd er skuld West Seafood ehf við Hlunna ehf og ÍS 47 ehf knúði fram greiðslu með kröfu um gjaldþrotaskipti á West Seafood ehf. Hafa bæði fyrirtækin hætt að landa afla hjá West Seafood vegna vanefndanna.

Fram kemur í bréfi Byggðastofnunar að í júlímánuði hafi verið gerð þrjú árangurslaus fjárnám hjá West Seafood ehf.

Þar með hafi markmið samningsins um aukna byggðafestu á Flateyri með stöðugri heilsárs fiskvinnslu ekki náðst. Er þaðþví mat Byggðastofnunar að forsendur samkomuagsins séu brostnar og að ekki verði komist hjá því að rifta samningum.

Byggðastofnun kynnti stöðu málsins fyrir Ísafjarðarbæ og Vestfjarðastofu á símafundi 31. maí sl. og bæjarráð Ísafjarðarbæjar bókaði 1. júlí í trúnaðarbók að  það teldi hag Flateyringa að nýr aðili kæmi inn með fiskvinnslu og félst á það mat Byggðastofnunar að ekki yrði komist hjá því að rifta samningnum.

Stjórn Byggðastofnunar tók ákvörðunina um riftun á fundi sínum 1. ágúst og tekur hún gildi frá og með 31. ágúst 2019.

DEILA