Fimm Vestfirðingar kepptu á Hjólreiðahelgi Greifans

Kata þeysist af stað.

Hjólreiðahelgi Greifans var haldin á Akureyri um næstsíðustu helgi. Hátíðin var glæsileg að vanda með mörgum fjölbreyttum hjólreiðaviðburðum og átti Vestri fimm þátttakendur.

Sigurður og Katrín Ólafsbörn tóku þátt í barna- og unglingamóti í XC fjallahjólreiðum og landaði Sigurður fyrsta sætinu í flokki 9-10 ára drengja. Þrír keppendur Þórdís Sif Sigurðardóttir, Heiða Jónsdóttir og Ólafur Stefánsson tóku þátt í Enduró fjallahjólamóti og Fjallabruni.

Barna- og unglingamótið var haldið í Kjarnaskógi þar voru hjólaðir tveir 4 km hringir í fjallahjólabraut. Endurómótið var haldið á svipuðu svæði en hjólaðir voru stígar sem liggja frá Hlíðarfjalli og niður að Kjarnaskógi, samtals 25km. Sú keppni fór þannig fram að á níu stöðum í brautinni var tímataka.

Keppnin í Fjallabruni var haldin í Hlíðarfjalli og voru hjólaðar tvær umferðir í þartilgerðri braut þar sem betri tíminn gilti í stigakeppni. Má segja að fyrirkomulagið minni á hefðbundið brun á skíðum.

Heiða Jónsdóttir lét vel af keppninni og var bærilega ánægð með árangurinn. Alls voru um 100 keppendur víðs vegar af landinu. Heiða sagði greinilegt að hjólreiðar væru að sækja verulega í sig veðrið hvað vinsældir snertir.

 

Siggi á fullri ferð í átt að gullinu.
DEILA