Edinborgarhúsið : Ísafjarðarbær vill finna lausn á fjárhagsvanda

Um mánaðamótin lætur af störfum framkvæmdastjóri Edinborgarhússins sem stjórn  Edinborgarhússins taldi sig tilneydda til segja upp af fjárhagsástæðum. Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri var inntur eftir því hvernig Ísafjarðarbær hyggðist bregðast við.

Guðmundur segir að hann hafi – að beiðni bæjarráðs – fundað með stjórn Edinborgarhússins og rætt við lánadrottna félagsins með það fyrir augum að leita lausna vegna íþyngjandi fjárhagslegra skuldbindinga og á sama tíma er verið að skoða möguleika á samningum um reksturinn milli ríkis, sveitarfélags og Edinborgarhúss.

Bjartsýnn á lausn

„Stjórn Edinborgarhússins ákvað á vordögum að grípa til aðgerða til að bregðast við núverandi rekstrarstöðu. Ég tel okkur öllum vera ljóst að ef við eigum að finna varanlega sameiginlega lausn sem tryggir Edinborgarhúsið í sessi þá verðum við að hugsa lengra fram í tímann en fram yfir næstu mánaðarmót. Slíkar umleitanir taka tíma því þar þurfa allir að ná saman. Við höfum lagt áherslu á að vinna málið með stjórn Edinborgarhússins og ég er bjartsýnn á að við munum leysa þetta í sameiningu.“

DEILA