Bolungavík: nýr leikskóli tekinn í notkun

Leikskólinn í Bolungavík, sem nefnist Glaðheimar, opnaði í nýju og endurbættu húsnæði nú í síðustu viku eftir sumarfrí nemenda og starfsfólks.

Skólinn hefur verið að hluta við Hlíðarstræti og að hluta í Lambhaga, húsnæði við íþróttamiðstöðina, en aðstaðan í Lambhaga verður lögð niður og starfssemi skólans verður í framtíðinni öll við Hlíðarstræti.

Ný viðbygging við húsnæðið í Hlíðarstræti var tekin í notkun í vikunni og verða eldri deildir þar í vetur en yngri deildir í Lambhagahúsnæðinu og í vetur verður eldri hluti húsnæðisins við Hlíðarstræti endurnýjaður. Með nýja húsnæðinu verður umtalsverð stækkun og hægt að taka á móti fleiri börnum. Til þessa hafa verið 57 börn í leikskólanum.

Áætlað er að breytingunum verið lokið næsta vor og skólinn verði allur undir sama þaki veturinn 2020-2021. Kostnaður er áætlaður 250 milljónir króna og segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri að ekki hafi verið samþykktur neinn kostnaður umfram það. Hann segir að verkinu miði samkvæmt áætlun bæði hvað varðar framkvæmdatíma og kostnað.