Björgunarskipið Gísli Jóns: tvö útköll í gær

Frá úkalli í gær. Myndir af síðu björgunarskipsins Gísli Jóns.

Björgunarskipið Gísli Jóns sinnti tveimur útköllum í gær. Um kl 10 barst útkall vegna veiks ferðamanns í Hlöðuvík í Hornstrandafriðlandinu. Áhöfn Gísla Jóns hélt þegar af stað með sjúkraflutningamann frá Ísafirði, þegar skipið var rétt ókomið í Hlöðuvík var sjúklingurinn kominn í borð í þyrlu LHG og skipinu því snúið við. Stuttu seinna var beðið um aðstoð í næstu vík, Fljótavík og fór því skipið rakleitt þangað og flutti sjúklinginn til Ísafjarðar.

Síðan Gísli Jóns tók við af Gunnari Friðriks fyrir einum og hálfum mánuði hefur skipið verið kallað 15 sinnum út. Að sögn forsvarsmanna sveitarinnar hefur skipið reynst vonum framar og staðist allar væntingar til ganghraða, aðstöðu sjúklinga og áhafnar, björgunareiginleika og rekstrarhæfni.

DEILA