Vesturlandsvegur breikkun: Skipulagsstofnun gagnrýnd

Ísfirðingurinn Halldór Jónsson gagnrýnir Skipulagsstofnun ríkisins fyrir þá ákvörðun að breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli fara í umhverfismat.  Segir hann það með ólíkindum. Þetta kemur fram í grein sem hann skrifar á skessukorn.is og birtist einnig hér á bb.is. Greinina er  að finna undir aðsendar greinar.

ekki náttúruvernd

Í greininni segir Halldór:

„Að eðlileg framþróun og löngu tímabær breyting á þjóðvegi er liggur um manngerð tún og mela skuli þurfa umhverfismat hefur ekkert með náttúruvernd eða varfærni í umhverfismálum að gera. Ákvörðun Skipulagsstofnunar er enn eitt dæmið um sívaxandi og óskiljanlega fyrirstöðu stofnunarinnar vegna framfaramála, einkum á landsbyggðinni,  á síðustu árum. Augljóst er að stofnunin er fyrir löngu komin langt af leið.“

Fyrirsjáanlegt er að framkvæmdum mun seinka vegna ákvörðunarinnar um a.m.k.  eitt ár. Halldór segir fráleitt að sætta sig við þessa ákvörðun Skipulagsstofnunar og skorar á bæjaryfirvöld á Akranesi, Reykjavíkurborg og Vegagerðina að nýta lagalegan rétt sinn til og kæra til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindmál til þess að reyna að koma í veg fyrir töf.

Halldór lýkur greininni með þessum orðum:

„og fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort lög landsins og stjórnsýslan séu orðin óleysanlegur hnútur í byggðaþróun í landinu. Slík kæra leiðir líka í ljós hvort sveitarfélög, fyrir hönd íbúa sinna, teljast aðilar máls eða hvort sá kæruréttur sé einungis á hendi örfárra útvalinna sérfræðinga eða samtaka með falleg nöfn.“