Vestralið á ReyCup 2019

Um síðustu helgi lögðu Vestrakrakkar land undir fót og tóku þátt í hinu gríðarstóra ReyCup-móti sem haldið er af Þrótti í Laugardalnum. Að þessu sinni voru keppendur um 1400, þar af nokkur erlend lið. Okkar fólki hefur oft gengið vel á þessu móti og nú varð engin breyting á. Þrjú lið voru send til keppni og fóru leikar svo að 3. flokkur stúlkna (fæddar árin 2003-2004) varð í 3. sæti í sinni deild eftir sigur í hnífjöfnum úrslitaleik og vítaspyrnukeppni. Þess ber líka að geta að í þetta sinn tóku nokkrar yngri stelpur þátt í gleðinni og hlutu þar nokkra eldskírn í viðureignum sínum við eldri stelpurnar.

4. flokkur drengja (fæddir 2005-2006) varð sömuleiðis í 3. sæti í sinni deild eftir 4-0 sigur á Þrótti.

3. flokkur drengja (fæddir 2003 og 2004) gerði sér lítið fyrir og sigraði sína deild með 1-0 sigri á Fjarðabyggð í úrslitaleik.

 

Vestrakrakkar gerðu því góða ferð þessa helgina og mega vel við una. Á myndunum má sjá krakkana taka við verðlaunum sínum í lok móts.