Súðavík: samningi um félagsþjónustu ekki enn sagt upp

Bragi Thoroddsen sveitarstjóri í Súðavík segir að staða mála sé óbreytt og enn er samstarf um félagsþjónustu milli sveitarfélaganna Súðavíkurhrepps og Bolungarvíkurkaupstaðar. Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps samþykkti  24. maí sl að leggja til „endurskoðun samnings um félagsmálafulltrúa við Bolungarvík og leita eftir samstarfi við annað sveitarfélag eða leita annarra lausna.“

Bragi segir að þessi hugmynd kalli á „þjónustukaup, enda hefur Súðavíkurhreppur ekki annað starfsfólk til að sinna félagsþjónustu. Varðandi framhald samstarfsins hefur ekki enn gefist færi að ræða það við samstarfsaðilann, Bolungarvíkurkaupstað. Fyrirhugðum fundi með bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar þann 14. júní sl. var frestað þar sem fulltrúar Bolungarvíkur höfðu ekki tök á að mæta þann dag.“

Á umræddum fundi hreppsnefndar Súðavíkur 14. júní er bókað að fulltrúar Bolungavíkurkaupstaðar hafi ekki mætt til fundar við hreppsnefndina.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík segir að Súðavíkurhreppur hafi ekki sagt upp samningi um félagþjónustuna við Djúp og að sveitarstjórnir bæjarfélaganna hafi ekki fundað.

Varðandi umræddan fund hjá sveitarstjórn Súðavíkurhrepps 14.júní svarar Jón Páll því til að „þá staðfesti ég ekki (og mér vitanlega engin annar hjá Bolungarvíkurkaupstað) mætingu á þennan fund og aldrei stóð til að fullrúar okkar myndu mæta á fund á þessum tíma. Þessi bókun kemur því á óvart og ég átta mig ekki á hvernig þessi misskilningur gat orðið.“

 

DEILA