Snæfell hf kemur inn í Hólmadrang

Útgerðarfélagið Snæfell, dótturfélag Samherja verður eigandi að Hólmadrang ásamt Kaupfélagi Steingrímsfjarðar Hólmavík. Frá því í apríl hefur Kaupfélagið verið eini eigandi að Hólmadrang og hvíldi öll framkvæmdin á greiðslustöðvuninni og nauðsamningunum á herðum Kaupfélagsins.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar hefur fengið Snæfell ehf., dótturfélag Samherja hf. í lið við sig til að styrkja rekstur Hólmadrangs ehf. Hólmadrangur hefur rekið rækjuvinnslu á Hólmavík frá árinu 1978 þar starfa rúmlega 20 manns. „Landslagið í rækjuiðnaði er að breytast. Mikil samþjöppun hefur átt sér stað sem nær langt út fyrir landsteinana. Til að lifa af er mikilvægt að styrkja þá hlekki sem veikastir hafa verið í rekstri félagsins s.s. hráefnisöflun, sölu og markaðssetningu“ segir Viktoría Rán, stjórnarformaður Hólmadrangs.

Undanfarnar vikur hefur staðið yfir endurfjármögnun og endurskipulagning á rekstri félagsins. Samherji var um árabil stór framleiðandi á rækju við Eyjafjörð auk þess sem félagið kemur að rekstri rækjuskipa í Kanada og Barentshafi og býr að sterku alþjóðlegu söluneti.

„Við erum afskaplega ánægð með aðkomu Samherja að fyrirtækinu og teljum mikilvægt að hafa sterkan aðila með okkur til að halda rekstri rækjuvinnslunnar gangandi á Hólmavík. Hólmadrangur á sér langa sögu og teljum við að með þessari breytingu verði sagan enn lengri,” segir Viktoría Rán.

DEILA