Náttúrurverndarsamtök Íslands: svara ekki

Það er ekki aðeins Bæjarins besta sem gengur illa að fá svör frá Árna Finnssyni formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Vegna málaferla og kærumála Náttúruverndarsamtakanna gegn laxeldi í sjó á Vestfjörðum lagði Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Sea Farm  töluvert á sig til þess að ná sambandi við Árna og ræða við hann um laxeldið. Sigurður sagði frá viðleitni sinni á bb.is í gær og Bæjarins besta hefur fengið leyfi hans til þess að rekja samskiptasöguna.

Þann 22. janúar 2019 sendi Sigurður tölvupóst til Árna og þar segir:

„Ástæðan fyrir þessu bréfi er sú að í dag var ég viðstaddur þingfestingu máls Náttúruverndarsamtaka Íslands ásamt hópi veiðiréttahafa í nokkrum laxveiðiám gegn fyrirtæki mínu. Það kom mér á óvart að sjá Náttúruverndarsamtök Íslands í hópi stefnenda. Því langar mig að hitta þig til að skilja betur hvers vegna þið eruð þátttakendur í þessum málarekstri. Einnig langar mig gjarnan að vita meira um áherslur samtakanna og hvort horft sé til alþjóðlegra markmiða, líkt og þeirra sem stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa sett sér, þegar baráttumál ykkar eru valin.

Ég óska eftir fundi með þér til að ræða þessi mál frekar.“

Svar berst ekki fyrr en 6. febrúar, tveimur vikum seinna svohljóðandi.

„Ég verð í bandi fljótlega.“

Ekkert heyrðist þó í Árna og Sigurður Pétursson ítrekar erindi sitt 22. febrúar en þann dag mætti hann í dómssal vegna málaferlanna sem Náttúruverndarsamtökin höfðuðu ásamt fleirum:

„Hef óskað eftir fundi til þess að ræða þessi mál og nú er liðinn meira en mánuður – ég þarf vegna þessarar stöðu sem nú er uppi að vera meira og minna á starfsstöðvum okkar fyrir Vestan næstu daga en hefði samt viljað þó ekki væri nema í gegnum síma ræða þetta frekar við þig.“

Ekkert heyrist í Árna og þann 6. mars sendir Sigurður Pétursson þennan póst til hans:

„Sæll Árni,

Í ljósi þess að enn á ný hefur borist kæra frá Náttúruverndasamtökum Íslands fyrir utan dómsmálið sem tekið var fyrir í gær sem og þeirri staðreynd að þú hefur ekki tekið boði mínu um að hittast eða ræða málin hef ég ákveðið að hætta frekar að ýta eftir því og mun í framhaldi meta hvort ég fari frekar yfir það mál á opinberum vettvangi.“

Engin svör hafa enn borist frá Árna Finnssyni.