Minjastofnun : bannar ærslabelg á Ísafirði

Minjastofnun óskaði eftir því að framkvæmdir við lagfæringar á ærslabelginn á Safnahústúninu yrðu stöðvaðar og var það gert.  Fullltrúi Minjastofnunar vildi ekkert um málið segja annað en að það væri í athugun og ekki væri tímabært að tjá sig um það þar sem ekki væri búið að svara framkvæmdaaðilum. Svo virðist ,samkvæmt heimildum Bæjarins besta, að kvartað hafi verið til Minjastofnunar og það hafi framkallað viðbrögð stofnunarinnar.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarritari staðfesti að bærinn hefði móttekið beiðni frá Minjastofnun Íslands um að stöðva framkvæmdir og væru aðilar að koma frá Minjastofnun til að skoða aðstæður. Minjastofnun hefði verið látin vita á sínum tíma þegar ærslabelgurinn var settur niður og ekki gert athugasemd en nú virtist sem svo að það væri ekki nóg heldur þyrfti að fá formlegt leyfi frá stofnuninni.

„Það er ekki vilji Ísafjarðarbæjar að hrófla við fornminjum. Það svæði sem ærslabelgurinn er á er ekki á skilgreindu svæði um friðlýstar fornminjar og um áður raskað svæði er að ræða. Ísafjarðarbær hefur verið að skoða endanlegt skipulag varðandi staðsetningu ærslabelgsins.“ Þórdís Sif bætti  við:

„Við vonumst sannarlega til þess að ungmenni okkar fái að njóta ærslabelgsins það sem eftir lifi sumars og að Minjastofnun geri ekki athugasemd við lagfæringar á honum sem nú standa yfir.“