Markaðshelgin: tónlistarhátíðin stóru tíðindin

Helgi Hjálmtýsson, viðburðastjóri í Bolungavík segir að tónlistarhátíðin Miðnætursól séu stóru tíðindin í Markaðshelginni þetta árið með úrkraínsku kammesveitinni Kyiv Soloists og ekki síður frammistaða Oliver Rähni, nemanda við Tónlistarskóla Bolungarvíkur, sem hafi leikið sér að flutningi á mörgum af þekktustu og erfiðustu verkum píanó-tónbókmenntanna.

Helgi var beðinn um mat sitt á viðburðum helgarinnar, en hann hefur borið hitann og þungan af undirbúningi þesssara velheppnuðu atburða:

„Markaðsdagurinn var haldinn í einmuna blíðu og sólskini í Bolungarvík um helgina. Í boði voru fjölbreytt skemmtiatriði fyrir fjölskyldur og var töluverður fjöldi fólks viðstatt. Þegar mest var um tvö leytið hafa verið um 800 manns á svæðinu í einu. Margir af söluaðilunum seldu ágætlega og voru ánægðir með daginn.

Söngnemendur Maríu Ólafs hófu dagskrána og tónleikhúsið Dúó Stemma fylgdi á eftir. Einar Mikael töframaður fór á kostum og Bríet Vagna frá Þingeyri lék á gítar og söng nokkur lög. Kómedíuleikhúsið flutti Dimmalimm og Einars leik Guðfinnssonar. Á meðan stóð yfir málverkasýning Grétu Gísladóttur í ráðhússsal Ráðhúss Bolungarvíkur. Gestir gátu farið á bak hjá hestamannafélaginu Gný og hoppukastalar og loftboltar voru í boði fyrir skemmtilega fólkið.

Tjöld voru notuð í stað gáma í fyrsta skipti um langt skeið. Björgunarsveitin Ernir hefur tekið við tjöldum tjaldaleigunnar sem var á Ísafirði og áfram verður hægt að leiga út tjöld, borð og bekki á Vestfjörðum hjá Erni en sveitin leigir og setur upp tjöld í fjáröflunarskyni.

Saman við Markaðshelgina í Bolungarvík var í fyrsta sinn fléttað tónlistarhátíð sem nefnist Miðnætursól. Á tvennum tónleikum í liðinni viku voru flutt verk eftir Mozart; sinfónía nr. 40 í G-moll og klarínettu konsert Mozarts en einleikari var Selvadori Rähni, klarínettleikari og skólastjóri Tónlistarskóla Bolungarvíkur. Einnig flutti Oliver Rähni, nemandi við skólann, einleiksverk á píanó eftir Chopin, Scarlatti, Beethoven, Liszt, Grainger og verk eftir sjálfan sig sem hann kallar Concert Fantasia on themes by Sigvaldi Kaldalóns. Þá voru flutt verk úr Árstíðunum eftir Vivaldi og spurnaverk hins argentínska bandeonleikara Astor Piazzolla út frá þeim.

Stóru tíðindin við þessa tónlistarhátíð voru nokkur en fyrst og fremst var það koma kammersveitarinnar Kyiv Soloists frá Kiev, höfuðborg Úkraníu, en hljómsveitin samanstendur af úkranísku tónlistarfólki sem hefur sigrað úkranískar og alþjóðlegar tónlistarkeppnir. Það verður ekki annað sagt en að þar hafi bókstaflega verið valinn maður í hverju rúmi. Á þriðja tug manna og kvenna leiku eins og einn maður væri með engan stjórnanda. Margir höfðu á orði að þeir hefðu ekki upplifað viðlíka tónlistarflutning á voru kæra landi og var augljóst að sveitin gaf nasasjón af margra alda menningu og hefðum Úkraínu. Sveitin flutti aukalag á tónleikunum sem allir tónleikagestir féllu kylliflatir fyrir, Melody in A minor eftir úkraínska tónskáldið Myroslav Skoryk, en verkið er afar fallegt og hádramatískt.“

 

Þá voru það ekki síður tíðindi á þessum tónleikum að sjá og heyra Oliver Rähni, nemanda við Tónlistarskóla Bolungarvíkur, leika sér að flutningi á mörgum af þekktustu og erfiðustu verkum píanó-tónbókmenntanna. Oliver á vissulega framtíðina fyrir sér sem píanóleikari og tónskáld. Oliver er fæddur í Kyoto í Japan árið 2003 og foreldrar hans eru Tuuli og Selvadore Rähni en hann nemur píanóleik hjá móður sinni.

 

Það voru Tónlistarskóli Bolungarvíkur og Bolungarvíkurkaupstaður sem stóðu fyrir tónlistarhátíðinni og vonandi verður framhald á þessari góðu og þörfu nýbreyti á næsta ári.