Í minningu Tryggva Ólafssonar

Opnuð verður sýning á prenti Tryggva Ólafssonar í Bryggjusal Edinborgarhússins 6. júlí kl. 16:00.

Tryggvi Ólafsson lést fyrr á þessu ári 78 ára að aldri eftir erfið veikindi. Hann sýndi list sína víða um heim og naut hylli hér á landi og erlendis. Tryggvi hlaut ýmsar viðurkenningar um ævina fyrir list sína og menningarsamskipti Íslands og Danmerkur en þar bjó hann ásamt fjölskyldu sinni í rúm 40 ár.

Tryggvi fæddist í Neskaupsstað 1. júní 1940. Eftir stúdentspróf við MR 1960 nam hann í eitt ár við Myndlistar- og handíðaskólann en fór í kjölfarið til Kaupmannahafnar og lærði við Konunglega listaháskólann þar í borg og vann í þeirri borg að list sinni.

Tryggvi var í hópi þekktustu og virtustu myndlistarmanna þjóðarinnar og voru verk hans í eigu fjölmargra listasafna á Íslandi og erlendis. Tryggvi er okkur ekki ókunnur og sýndi þrisvar sinnum í Slunkaríki og einu sinni hjá Listasafni Ísafjarðar árið 2010. Í sýningarskrá sem kom út af því tilefni segir Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur m.a.: Í myndlist sinni er Tryggvi Ólafsson maður tvennra tíma. Listrænar rætur hans liggja í hlutlægri málaralistinni sem stunduð var á Íslandi frá stríðslokum og fram á sjöunda áratuginn á síðustu öld, að viðbættri gjörvallri listasögunni frá Piero della Francesca til Matisse. Hins vegar verða myndir hans mestmegnis til undir merkjum nýbylgjunnar á sjötta og sjöunda áratugnum, sem jafnframt er þroskaskeið hans sjálfs: evrópskrar og amerískrar popplistar og franskra og ítalskra kvikmynda. Í þessa deiglu bætast síðan djúpstæður áhugi á jazztónlist, bókmenntum af ýmsu tagi og róttækar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Hér er komin uppskriftin að myndlist Tryggva, sem er að stofni samsafn aðfanga úr heimi nútíma fjölmiðlunar, auglýsinga, myndskeiða úr kvikmyndum og sjónvarpi, ljósmynda, teiknimynda og aðskiljanlegs myndefnis sem listamaðurinn hefur tínt upp af götu sinni. En öfugt við þorra Popplistamanna, sem ýmist eru ópersónulegir eða kaldhæðnir í afstöðu sinni til myndefnisins, er Tryggvi tilfinningalega eða hugmyndalega tengdur því efni sem hann er með undir höndum, auk þess sem myndbygging hans og litróf bera meiri keim af fagurfræði módernismans en kaldhamraðri popplist.

„Ein af þörfum mannsins er þörfin fyrir fegurð, hún er bara misjafnlega sterk hjá fólki. Ég held að fegurðarskynið komi bara frá því að barnið er á brjósti hjá móðurinni. Ég hef haft þessa myndaþörf, það eru alveg hreinar línur með það, hún fer aldrei. Þegar ég er á ferðalögum og geri ekki neitt – og líður ágætlega við að sjá myndir, verk eftir aðra menn – þá fer mig að lengja eftir því að gera eitthvað sjálfur.“ Segir Tryggvi á einum stað. Eftir alvarlegt slys árið 2007 gat Tryggvi ekki málað lengur og flutti aftur til Íslands með eftirlifandi eiginkonu sinni, Gerði Sigurðardóttur. Þó Tryggvi hafi ekki getað málað eftir slysið hélt hann áfram að vinna að list sinni og vann grafík fram á síðasta dag. Hann hélt meðal annars tvær einkasýningar á grafík árið á síðasta ári.

„Hvað myndirnar mínar duga lengi eftir að ég er allur, það veit ég ekki. Þær verða bara að standa fyrir sínu. Tíminn er harður dómari og hann á að vera það.“

Sýningin er sölusýning og er opin til 28. júlí á opnunartíma Edinborgarhússins. Tómas R. Einarsson og Villi Valli heiðra minningu Tryggva með völdum lögum á opnuninni og verða léttar veitingar í boði.

Allir velkomnir.

Jón Sigurpálsson