Nokkrar aspir á göngustíg við Drafnargötu voru sagaðar niður um helgina. Það var eigandi Bræðraborgar Sveinn Yngvi Valgeirsson sem það gerði. Í samtali við Bæjarins besta sagði hann að aspirnar væru við garðinn hjá sér og komnar utan í lóð hans. Svein sagðist ekki hafa fengið leyfi til þess en hann sagði aspirnar háar og vera komnar upp í þakrennur á hans húsi og svo væru komnar holur í stéttina kringum aspirnar og þær væru hættulegar. Svein sagðist hugsa sér að setja víði þarna í staðinn. Aspirnar voru á göngustígnum sem er á forræði bæjarins.
Trén voru keypt fyrir fé úr sjóðnum Samhugur í verki og gróðursett eftir snjóflóðin. Af viðbrögðum á Flateyri er ljóst að þau sjónarmið eru sterk að tilfinningalegur missir sé af trjánum.
Hvorki náðist í Guðmund Gunnarsson, bæjarstjóra né Þórdísi Sif Sigurðardóttur, bæjarritara. Hafdís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs hafði ekki heyrt af málinu þegar haft var samband við hana en hún sagðist vera leið yfir að viðkomandi hefði tekið málið í sínar hendur og ekki ráðfært sig við bæjaryfirvöld.