Fjölbreytt dagskrá í Steinshúsi og Dalbæ um verslunarmannahelgina

Kvöldvaka með kvæðaflutningi, Kaldalóns og Steini í Steinshúsi föstudagskvöldið 2. ágúst

Föstudagskvöldið 2. ágúst kl. 20 verður kvöldvaka í Steinshúsi þar sem Ása Ketilsdóttir kvæðakona kemur fram ásamt sonardóttur sinni Sunnevu Þórðardóttur. Þær munu flytja valinn kveðskap. Ástrún Helga Jónsdóttir sópran mun syngja lög eftir Kaldalóns við undirleik Jóns Hallfreðs Engilbertssonar og Þorvaldur Örn Árnason mun flytja nokkur lög við ljóð eftir Stein Steinarr. Loks mun Unnur Malín Sigurðardóttir flytja spunaverk um Tímann og vatnið. Aðgangur er ókeypis. Uppbyggingarsjóður Vestfjarða styrkir viðburðinn.

Unnur Malín – tónleikar í Dalbæ sunnudaginn 4. ágúst

Unnur Malín heldur tónleika í Dalbæ sunnudaginn 4. ágúst kl. 14. Hún hefur fengist við tónlist frá unga aldri. Formlegt tónlistarnám hennar hófst í Skólalúðrasveit Vesturbæjar þar sem hún lærði á fyrst á trompet, svo faguróma (euphonium). Þá hefur hún alla tíð haft unun af að syngja, var í barnakórum og hóf svo söngnám við sextán ára aldur.  Hún lagði stund á söngnám í jazzdeild FÍH og í óperudeild Söngskólans í Reykjavík.

 

Meðal söngkennara hennar voru Sverrir Guðjónsson, Jóhanna Linnet og Ólöf Kolbrún Harðardóttir. Hún hefur sungið með ótal kórum og hljómsveitum, m.a. með reggísveitinni Ojba Rasta sem náði miklum vinsældum fyrir nokkrum árum. Þá hefur hún á undanförnum árum verið að sækja í sig veðrið sem tón- og söngvaskáld. Unnur hefur samið tónlist fyrir ólíka tónlistarhópa, og má þar nefna Kammerkór Suðurlands, Íslenska strengi og Duo Harpverk.

Þykir Unnur hafa mikið næmi fyrir litbrigðum í tónsköpun sinni og tónlist hennar hreyfir við áheyrendum. Þá semur Unnur Malín einnig tónlist sem hún flytur sjálf og vílar ekki fyrir sér að standa ein frammi fyrir áheyrendum með gítar og rödd sína að vopni. Unnur hefur haldið tónleika vítt og breitt um landið, auk þess sem hún er nýkomin úr tónleikaferð um Ítalíu þar sem hún kynnti tónlist sína fyrir ítölskum áheyrendum. Hljóðheimur Unnar Malínar er fjölbreyttur og áhugaverður, dramatískur og fyndinn, stundum bæði í senn.   Uppbyggingarsjóður Vestfjarða styrkir viðburðinn.

 

Aldarminning um Ásgeir Guðjón Ingvarsson  laugardaginn 3. ágúst

Laugardaginn 3. ágúst kl. 16:30 verður dagskrá í Dalbæ á Snæfjallaströnd til að heiðra aldarminningu Ásgeirs Guðjóns Ingvarssonar (1919-1989) tónskálds, textahöfundar, tónlistar- og myndlistarmanns.

Ásgeir Guðjón Ingvarsson.

Ásgeir var fæddur á Hamri í Nauteyrarhreppi, en fluttist ungur í Snæfjallahrepp með foreldrum sínum, Salbjörgu Jóhannsdóttur og Ingvari Ásgeirssyni og þar ólst hann upp. Fjölskyldan bjó fyrst í Hólhúsinu í Bæjum, síðan í Unaðsdal og loks á Lyngholti þar sem Ásgeir lærði að lesa nótur og spila á orgel hjá Þorgerði Sveinsdóttur, systur Ásmundar myndhöggvara. Tólf ára gamall var Ásgeir farinn að spila á orgelið í Unaðsdalskirkju. Ásgeir dvaldi um skeið á Ísafirði og tók þar þátt í tónlistarlífi, fór að spila á gítar og semja lög og gamanvísur. Lengst af bjó Ásgeir í Kópavogi þar sem hann vann sem tækniteiknari og mælingamaður