Eigandi Engjaness: landakröfum mótmælt

Lögfræðingur eiganda jarðarinnar Engjaness í Árneshreppi, Felix von Longo-Liebenstein mótmælir meintum landamerkakröfum 10 eigenda Drangavíkur. Þetta kemur fram í bréfi hans til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál sem viðbrögð við kæru til nefndarinnar þar sem þess er krafist að rannsóknir vegna Hvalárvirkjunar verði stöðvaðar með þeim rökum að eigendur Drangavíkur hafi ekki gefið samþykki sitt fyrir þeim

Lögfræðingurinn segir í bréfinu að hin meintu landamerki eigi sér ekki stoð í þinglýstum gögnum frá 1890, þar komi fram með skýrum hætti að Eyvindarfjarðará ráði merkjum til sjávar milli Engjaness og Ófeigsfjarðar.

Þá segir í bréfinu að jörðin hafi verið keypt árið 2006 og hvorki fyrr né síðar hafi verið  ágreiningur við eigendur Drangavíkur um landamerki svo bréfritara kunnugt sé um. Lögfræðingurinn bendir á að ágreiningi um land eiga að bera undir sáttanefnd sýslumanns eða dómstóla og úrskurðarnefndin hafi ekki í lögum neina heimild til þess að skera úr um ágreining.

Loks kemur fram í bréfinu að Vesturverk ehf hafi fulla heimild eiganda Engjaness til framkvæmda vegna rannsókna á jörðinni og liggi fyrir skriflegur samningur þar um sem hafi verið þinglýstur.