Ég bý á Bíldudal – ef við fáum hjartaáfall þá munum við deyja

Nanna Sjöfn flytur ávarp íÞormóðslundi á Bíldudals grænum um síðustu mánaðamót.

Hjartaheill er landssamband hjartasjúklinga. Samtökin gefa út blaðið Velferð. Í nýjasta blaðinu er afar áhugaverð saga Nönnu Sjöfn Pétursdóttur sem býr á Bíldudal. Lysinga hennar varpar ljósi á verulega annmarka á bráðaþjónustu við íbúa víða í dreifbýlinu sem fá hjartaáfall. Bæjarins besta hefur fengið samþykki Nönnu Sjafnar og Péturs Bjarnasonar, ritstjóra fyrir því að endurbirta viðtalið og eru þeim færðar góðar þakkir fyrir.

Sett er sérstök fyrirsögn hér til þess að draga athygli að þessu atriði, en öðru leyti er viðtalið birt óbreytt.

-k

Ritstjóri Velferðar var á Bíldudal á dögunum og átti þar ágætt spjall við Nönnu Sjöfn Pétursdóttur, sem fór í hjartauppskurð fyrir tíu árum. Hér á eftir deilir hún sögu sinni með lesendum Velferðar en fyrst langar mig að segja nokkur deili á henni.

Nanna SjöfnNanna Sjöfn Pétursdóttir er fædd á Patreksfirði, en flutti 7 ára í Hafnarfjörð og ólst þar upp. Hún varð stúdent frá Flensborgarskóla og útskrifaðist frá HÍ með BA próf í sálarfræði. Tók svo uppeldis og kennslufræði og mastersnám í stjórnun menntastofnana. Eiginmaður Nönnu, Jón Rúnar Gunnarsson, sem lést árið 2012, var frá Bíldudal og þangað lá leið þeirra árið 1986. Þar ráku þau verslun um skeið með foreldrum Rúnars og samhliða því kenndi Nanna Sjöfn við grunnskólann á Bíldudal og varð síðar skólastjóri þar.

Hún sat í fyrstu bæjarstjórn Vesturbyggðar eftir sameiningu fjögurra sveitarfélaga 1994 og var forseti bæjarstjórnar um nokkurt skeið. Hún var skólastjóri sameinaðs grunnskóla Vesturbyggðar í fjórtán ár, en starfar nú sem fræðslustjóri og persónuverndarfulltrúi Vesturbyggðar.

Gefum nú Nönnu Sjöfn Pétursdóttur orðið:
Vorið 2009, en þá var ég rúmlega fimmtug, hafði ég um langan tíma verið undir miklu álagi í starfi. Ég var þá skólastjóri Grunnskóla Vesturbyggðar, sem var með höfuðstöðvar á Patreksfirði en undir hann heyrðu líka skólarnir á Bíldudal og Barðaströnd. Þetta kostaði ferðir um erfiða fjallavegi að vetrarlagi og mikið samræmingarstarf. Það var mörgu að sinna, þetta var þó nokkurt álag og dagarnir gátu orðið langir.

Mamma var alltaf að ýta á mig að fara í Hjartavernd og láta skoða mig, af því að það er mikil ættarsaga hjá mér um hjartveiki, pabbi dó þegar hann var sextíu og tveggja ára. Ég hafði ekki tekið eftir neinum sérstökum einkennum öðrum en þeim að ég var stundum dálítið móð og fannst oft eins og ég væri með þungan stein fyrir brjóstinu. Ég hugsaði svo sem ekkert út í það

Það varð samt úr að ég dreif í þessu vorið 2009 og fór í skoðun. Þá kom í ljós að ég var með sykursýki tvö og var send strax á bráðavaktina til frekari athugunar. Þar fór ég í gegn um allan pakkann, hjartalínurit og áreynslupróf og allt þetta. Þar fékk ég í ágæta útkomu, enda kom ég alltaf vel út í öllum áreynsluprófum. Svo heyri ég að læknirinn fer í símann og hún er að tala við einhvern og ég heyri að hún segir: „Hún kemur ágætlega út úr áreynsluprófinu og þetta lítur allt vel út, eigum við ekki bara að senda hana heim?“

Það var nefnilega alltaf sagt við mig, nánast hvar sem ég fór: „Það verður allt í lagi með þig. Þú ert ung, þú ert kona og þú hefur aldrei reykt.“ Þetta voru eiginlega lausnarorðin hvar sem ég kom.

Svo kom læknirinn og fór að fylla út útskriftarpappírana. Þá segi ég við hana og ætlaði bara svona að vera svolítið fyndin: „Þú veist að ég bý fyrir vestan, á Bíldudal.“ Já, hún kannaðist við það. „Já, sérðu til, á Bíldudal erum við búin að reikna það út, að ef við fáum hjartaáfall þar þá munum við deyja.“ „Ha?!“ segir hún alveg klumsa. „Hvað meinarðu?“ „Já, ef við fáum hjartaáfall á Bíldudal þá er það of langt frá Patreksfirði, þar sem heilbrigðisþjónustan og starfsfólkið er, til að bráðahjálp náist í tæka tíð. Það gæti sloppið á Tálknafirði, en til Bíldudals tekur of langan tíma að komast, sérstaklega á veturna, svo það næst bara ekki ef menn fá hjartaáfall á Bíldudal.“

Við þetta varð hún eitthvað hugsi og svo sagði hún: „Það er kannske rétt að ég sendi þig í ómskoðun, svona til öryggis.“ Jú, ég var svo sem alveg til í það. Svo fór ég í ómskoðun og síðan heim samdægurs.

Læknirinn hringdi í mig morguninn eftir og sagði að ég yrði að koma strax suður aftur, því það hefðu komið í ljós stíflur í kransæðum í ómskoðuninni. Þannig að ég dreif mig suður aftur og var lögð beint inn. Morguninn eftir var ég send í þræðingu. Mér fannst þetta allt heldur einkennilegt, því eftir þræðinguna var mér bara rúllað fram á gang og þar beið ég og vissi ekkert hvað var að gerast. Svo eftir nokkra stund kom þarna læknir og ég spurði hann hvað væri um að vera og hvað ætti að gera við mig. Hann sagði: „Ja, þú átt að fara beint í aðgerð því þú ert með 90% stíflu í kransæðum“. Svo labbaði hann í burtu en ég lá þarna í sjokki yfir þessum tíðindum og leið satt að segja ekki vel.

Aðgerðin var undirbúin fljótlega eftir það, en hún fólst í því að það voru teknar æðar úr hægra fæti og þeim skipt út fyrir hinar stífluðu að mér skilst. Það voru fjórar kransæðar sem voru meðhöndlaðar þannig.

Aðgerðin tók sinn tíma en gekk vel og allt eins og til stóð. Á meðan ég lá og var að jafna mig eftir aðgerðina, komu tvisvar læknar með hóp af læknanemum og báðu mig að lýsa aðdragandanum, hvernig einkennin hefðu verið fyrir aðgerðina og hvernig mér hefði liðið, til sannindamerkis um að einkenni hjá konum væru allt önnur en hjá körlum. Ég var notuð svolítið sem dæmi um þetta, svo þeir yrðu meðvitaðri um þetta læknanemarnir. Það vakti sérstaka athygli að ég var einkennalaus, kom vel út í áreynsluprófi og var ekki með verki út í handleggina, eins og var talið dæmigert, hafði stundað göngur og það eina sem ég hafði tekið eftir var þessi þyngslatilfinning fyrir brjóstinu. Eftir hefðbundinn tíma var ég útskrifuð af sjúkrahúsinu og fór heim.

Þessi saga sem ég sagði lækninum, um möguleika Bílddælinga sem fengju hjartaáfall, varð til þess að ég fékk frekari rannsóknir. Þær leiddu í ljós að líklega hefði ég fengið hjartaáfall á Bíldudal þá um sumarið eða veturinn eftir, hefði ekkert verið gert, og þá er ekki að vita hvernig hefði farið. Ég bar þessa sögu mína undir yfirlögregluþjóninn á Patreksfirði, en þeir hafa annast sjúkraflutninga, og hann sagði þá alveg vera meðvitaða um þessa hættu.

Nokkru fyrr en þetta var greindist maðurinn minn, Jón Rúnar Gunnarsson, með erfiðan sjúkdóm, MSA, sem er svipaður og MND, og veikindin drógu hann að lokum til dauða árið 2012. Við eigum tvær dætur, Önnu Vilborgu og Lilju Rut. Þær búa báðar á Bíldudal með fjölskyldur sínar.

Nokkru eftir aðgerðina hjá mér fórum við Rúnar bæði á Reykjalund í endurhæfingu í fimm vikur og áttum þar mjög góðan tíma, sem mér fannst afar gagnlegur fyrir mig og ég var miklu hressari þegar ég kom þaðan. Aðstaða þar, aðbúnaður og starfsfólk reyndist okkur afar vel. Fyrst eftir aðgerðina var ég frekar dugleg að fara í gönguferðir og passaði mjög vel upp á mataræðið, en með tímanum hefur slaknað heldur á þessu og maður rennur inn í daglegar venjur. Samt finnst mér að ég hugsi betur um heilsuna og næringu en ég gerði áður en þetta varð og ég reyni að stunda gönguferðir eftir föngum. Mætti samt vera duglegri. Ég hitti hjartalækninn minn, Ugga Agnarsson, einu sinni á ári og hann fylgist með mér og tékkar á heilsufarinu, sem veitir mér visst öryggi.

Heilsugæslumál á Bíldudal eru þannig að sækja þarf nær alla þjónustu til heilsugæslunnar á Patreksfirði. Læknir kemur núna einu sinni í viku til Bíldudals og er með viðtalstíma á fimmtudögum. Eftir sem áður er öll lyfjaafgreiðsla og önnur þjónusta á Patró. Hjartastuðtæki er komið núna á þessa stofu, og það á að vera aðgengilegt. En eins og ég sagði áðan tekur það óhjákvæmilega nokkurn tíma að veita bráðaþjónustu frá Patreksfirði.

Sjúkraþjálfun er bara á Patreksfirði og mismunandi hvað er í boði hverju sinni. Svo er yfir tvo fjallvegi að fara og ekki víst að fólk sé í standi til þess að keyra þangað, nýkomið úr aðgerð. Hér á Bíldudal er lítil aðstaða fyrir þá sem þurfa endurhæfingu eða viðhaldsþjálfun. Við hefðum til dæmis kosið að hafa sundlaug hérna og vel búinn tækjasal til að æfa í. Ég get samt farið á göngubretti í íþróttahúsinu og geri það oft. Næsta sundlaug er í Tálknafirði en á veturna er fólk ekki að stunda hana reglulega og reyndar ekki á sumrin heldur, því þetta eru 40-50 kílómetrar fram og til baka, og yfir háan fjallveg að fara. Ég reyni samt að fara þangað eins oft og ég get, því sund gerir mér mjög gott. Svo finn ég mér ýmislegt að gera sem virkar vel og er slakandi. Ég sauma út og er líka svolítið að mála og föndra með ýmislegt. Þetta er ágætt og gefur mér slökun og hugarró. Útsaumur getur alveg verið á við hugleiðslu. Ég bý hér alveg niður við sjó með dásamlegt útsýni og rólegu umhverfi og fer oft í fjöruferðir hér um nágrennið.

Ég var ekkert að hugsa um það á þeim tíma, en eftir á að hyggja þá sé ég að ég hafði líklega of lítinn tíma til að sinna sjálfri mér þegar ég kom heim eftir aðgerðina og því tók það mig lengri tíma en annars hefði verið að ná fullri heilsu aftur. Í raun var maðurinn minn sjúklingurinn frekar en ég og líklega hefði ég þurft að fá meiri tíma fyrir mig sjálfa eftir aðgerðina, ég held að maður þurfi þess með eftir áfall af þessu tagi. Ég náði samt alveg ágætri heilsu þrátt fyrir allt, en það tók nokkurn tíma.

Vinnan var áfram mikil næstu ár á eftir, en nú hefur það breyst, því ég er farin að taka hálf eftirlaun og er í hálfu starfi sem fræðslustjóri Vesturbyggðar með vinnuaðstöðu að mestu hér á Bíldudal.

En af því að ég var að tala um aðstöðuleysi og fleira hér á staðnum þá er ýmislegt annað sem bætir það upp. Samfélagið hér er ótrúlega hjálplegt og sterkt og það gefur manni mikið að finna hlýjuna sem umvefur mann þaðan. Ég komst t.d. að því, að á meðan ég beið eftir aðgerðinni, þá bárust fréttir vestur um að hún gæti brugðist til beggja vona og ástandið væri alvarlegt. Þá kom fjöldi manns saman í kirkjunni hér og bað fyrir mér og því að allt gengi vel. Það eru fleiri dæmi um samhug af þessu tagi þegar eitthvað bjátar á. Þetta finnst mér afar dýrmætt og gefur mér mikið.

Vörubíll
Vörubíll sömu gerðar og lenti á bíl Nönnu Sjafnar. Þetta er ekki árennilegt ferlíki að mæta í hálku.

Ég lenti í rosalegu bílslysi 2016, sem varð til þess að ég hugsaði þetta allt upp á nýtt, álagið, vinnuna og ferðalögin sem henni fylgdu. Ég var á leið heim frá Patreksfirði og það var blindbylur og hálka. Ég fór heim í fyrra lagi því veðrið var versnandi og yfir tvo fjallvegi að fara. Þegar ég var komin upp Mikladalinn keyrði ég fram á bíl sem var á undan mér, þetta var sölumaður sem var líklega ekki vanur svona aðstæðum og hann hafði fest sig í þarna í skafli á öfugum vegarhelmingi. Ég stoppaði góðan spöl fyrir aftan hann, sat bara í bílnum, til þess að sjá hvað yrði úr þessu. Hann stóð þarna fyrir utan bílinn og var eitthvað að krafsa í snjóinn að mér sýndist. Í því kemur vörubíll með risastóran tengivagn niður brekkuna með fullfermi af laxi, sem er 40 tonn. Bílstjórinn sá bílinn þarna fastan á öfugum vegarhelmingi, gat ekki stöðvað og skellti sér yfir á hinn helming vegarins til að forðast árekstur við þann sem var fastur. En ég beið í kófinu á réttum vegarhelmingi neðar í brekkunni og vörubílstjóranum tókst ekki að stöðva né fara yfir á réttan vegarhelming, og lenti því beint framan á bílinn hjá mér. Þetta eru risastórir bílar með langan tengivagn og alls eru, held ég, 22 hjól undir svona ferlíki. Höggið var gífurlegt, en það hjálpaði þó að undir snjóþekjunni á veginum var flughált. Bíllinn minn flaug því afturábak niður brekkuna og það hefur eitthvað dregið úr högginu, sem var þó mikið. Svo reyndi bílstjórinn að ná valdi á bílnum og koma honum yfir á réttan vegarhelming fram hjá mér. Við það slóst tengivagninn í hliðina á bílnum mínum og henti honum langt út fyrir veg, sem betur fer í skaflinn þar, en ekki á stórgrýti. Svo ég sat þarna stórlega lemstruð, skrámuð og marin eftir átökin, beltin og loftpúðana, sem vafalaust hafa þó bjargað lífi mínu. Og auðvitað var ég í taugaáfalli. Það er skrýtið á svona augnabliki sem er þó bara örskotsstund hvað maður getur hugsað margt og ekki í samhengi. Ég hugsaði auðvitað til barnanna og fjölskyldunnar en líka gat mér dottið í hug önnur eins vitleysa eins og að ergja mig yfir því að núna færi ég að enda ævina þarna og gæti ekki einu sinni nýtt eftirlaunin mín sem ég ætlaði að taka þegar ég yrði sextug og kæmist á 95 ára regluna. Ég var hneyksluð á sjálfri mér á eftir, en líklega er ekkert rökrétt á svona stundum.

Vesalings sölumaðurinn horfði upp á þetta allt saman þar sem hann stóð við bílinn sinn og honum hefur líklega ekki liðið vel. Hins vegar er líklegt að ef vörubíllinn hefði lent á honum hefði hann drepið hann, því hann var að bjástra við bílinn. Þarna hefur því bílstjóri vörubílsins líklega bjargað mannslífum með þessari ákvörðun og réttum viðbrögðum.

Ég var ansi illa farin eftir þetta slys, rifbeinsbrotin, illa skrámuð á hnjám og marin um allan líkamann og var lengi að jafna mig eftir það. Bíllinn alveg gjörónýtur, en það skipti þó minnstu. En þrátt fyrir að líkamlegu áverkarnir væru sýnilegri og sárari í fyrstu, var það samt áfallið sem hafði mest eftirköst. Ég gat ekki hugsað mér þetta lengur, að þurfa að keyra þessa erfiðu fjallvegi að vetrarlagi næstum hvernig sem viðraði, til viðbótar við það álag sem fylgdi starfinu. Þó þetta væri eina alvarlega slysið sem ég lenti í á þessum ferðum var álagið mikið. Ég hafði oftar en einu sinni farið út af veginum, fest bílinn í skafli og þurft að bíða eftir björgunarsveit eða öðrum hjálparmönnum. Þetta var bara orðið mér ofviða að glíma við þetta til viðbótar við starfsálag.

Því fékk ég að breyta um starfsvettvang og hafa vinnuaðstöðu hérna á Bíldudal frá haustinu 2016 og þannig hefur það verið síðan. Mér finnst það dásamlegt og auðvitað miklu nær því sem hægt er að telja eðlilegt.

Að lokum tel ég mig vera heppna að hafa fengið að fara í þessa aðgerð og þar með fá bót á því sem þá var komið fram. Mér finnst ég vera öruggari á eftir, því nú er ég undir reglubundnu eftirliti sérfræðilæknis og veit ýmislegt um hjartasjúkdóma og forvarnir gegn þeim.

Nanna Sjöfn
Nanna Sjöfn með dætrum sínum, Önnu Vilborgu og Lilju Rut
Nanna Sjöfn
Nanna Sjöfn með eiginmanni sínum Rúnari Gunnarssyni
Nanna Sjöfn
Fjölskyldan
DEILA