West Seafood, Flateyri: stjórnarmenn segja sig úr stjórn- breytingar boðaðar

Karl Brynjólfsson.

Miklar hræringar hafa verið í West Seafood ehf á Flateyri síðustu mánuði. Báðir stjórnarmennirnir Steinþór Bjarni Kristjánsson og Karl Brynjólfsson hafa sagt sig úr stjórninni og framkvæmdastjórinn Elísabet Dungal er nú stjórnarmaður jafnfram því sem sú breyting hefur orðið að aðeins einn er í stjórninni í stað tveggja áður.

Á aðalfundi West Seafood 9. október 2018 eru Steinþór Bjarni og Karl stjórnarmenn. Þann 8. apríl 2019 sendir Steinþór Bjarni Kristjánsson inn tilkynningu þar sem hann segir sig úr stjórninni.

Þann 23. apríl 2019 er haldinn aðalfundur að nýju og þá er Elísabet Dungal ein kosin í stjórn og Karl Brynjólfsson varamaður hennar. Daginn eftir, þann 24. apríl sendir Karl frá sér tilkynningu þar sem hann segir sig úr varastjórninni og auk þess afturkallar prókúruumboð sitt.

Karl Brynjólfsson segist þó ekki vera hættur afskiptum af daglegri starfsemi fyrirtækisins enda áfram hluthafi í því. Fyrir dyrum er, að sögn Karls, að nýir aðilar komi að fiskvinnslunni til að styrkja fyrirtækið og muni lögmaður þeirra aðila, Karl Georg Sigurbjörnsson, koma strax  inn í stjórnina.

Ætlunin sé að breyta rekstrinum og fá inn nýtt og öflugt fólk sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á markaði, sem hafi vantað til þessa. „Við ætlum að byrja fullvinna fisk í pakkningar fyrir innanlandsmarkað og erlenda-markaði en við munum minnka aðeins kaup á markaði“ segir Karl og ennfremur segir hann að „Samhliða þessu er verið að fá aðila til að vinna hliðarvöru sem ég get ekki sagt alveg frá en samningar langt komnir og mun helmingur af okkar starfsfólki vinna það.  Fullvinnsla í neytenda-umbúðir eins og Þorsk – Ýsu og aðrar tegundir fyrir innanlandsmarkað og erlendan markað er það sem við munum gera.“

DEILA