Tjarnarbraut 3 Bíldudal: kostnaður nærri 40 milljónir króna

Vesturbyggð keypti Tjarnarbraut 3 á Bíldudal af ríknu árið 2016 fyrir 3.389.000 kr og ákveðið var að gera húsið upp og útbúa þrjár íbúðir í því.

Verkið er nú á lokastigi og stefnir í að kostnaðurinn verði nærri 40 milljónir króna. Í fundargerð bæjarráðs Vesturbyggðar í gær kemur fram að kostnaður ársins er orðinn 15,8 milljónir króna og að ólokið er framkvæmdum fyrir um 800 þús kr.

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri segir í svari við fyrirspurn bæjarins besta að

„Heildarkostnaður við endurbætur á Tjarnabraut á Bíldudal nemur 38.297.773 kr. sem dreifist á árin 2016-2019 og um er að ræða þrjár leiguíbúðir. Í fjárhagsáætlun 2018 var gert ráð fyrir 18,2 m. kr. en ekki tókst að ljúka öllum framkvæmdum við eignina sem áætlað var fyrir á árinu 2018. Þá kom í ljós við framkvæmdina að vinna við rafmagn við íbúðirnar var umfangsmeiri en áætlað var og þurfti að endurnýja allt rafmagn. Þá kom í ljós raki í útvegg sem bregðast þurfti við með tilheyrandi kostnaði og þá var frágangur vegna breytinga á loftum og veggjum íbúðanna umfangsmeiri en áætlað var, sem leiddi til aukins kostnaðar við spörslun og málun.“