Suðureyri: varð að kosta götuna sjálfur

Elías Guðmundsson, eigandi Fisherman á Suðureyri varð að kosta sjálfur að öllu leyti gerð götu að húsi sínu að Brekkustíg 7 á Suðureyri.

Forsaga málsins er sú að Elías keypti fyrir 10 árum gamalt hús við Brekkustíg sem hann ólst upp í. Hann hugðist rífa það og byggja nýtt á lóðinni. Elías segist fyrst hafa fengið  synjun á niðurrifi hjá bæjarfélaginu en fékk eftir nokkurra ára eftirrekstur heimild til að rífa það og byggja annað  helmingi stærra sem uppfyllir nútímakröfur.

Elías segist hafa óskað eftir aðgengi að húsinu „um gömlu götuna sem var þarna þegar ég var að alast upp og var synjað en þegar ég bað um að fá gögn sem sýndu að Brekkustígur hafi verið afmáður af skipulagi þorpsins þá var fátt um svör og þá fékk ég lóðaleigusamning á þeim forsendum að ef ég myndi gera þarna götu þá væri það á minn kostnað. Þegar kom að því að malbika götuna sem ég hafði byggt fyrir töluvert fé þá óskaði ég eftir því að bærinn tæki þátt í þeim kostnaði en þvi var synjað líka.“

Kostnaður Elíasar  við Brekkustíg er orðinn 3 – 4 milljónir króna sem hann hefur greitt úr eigin vasa. Ísafjarðarbær hefur nú breytt deiliskipulaginu, að sögn Elíasar og bætt við auka lóð við Brekkustíg sem er nr 5.

Gamla húsið við Brekkustíg sem var rifið eftir nokkura ára stapp við bæjaryfirvöld.
Nýja húsið að Brekkustíg 7 er hið glæsilegasta hús.