Strandblaksmót dagana 6.-7. júlí á Þingeyri.

Skráning er nú í fullum gangi í Stigamót 3 í strandblaki. Mótið er hluti af mótaröð BLÍ sem haldið er á nokkrum stöðum um landið. Að venju er 3. stigamót sumarsins haldið af Íþróttafélaginu Höfrungi á Þingeyri og er þetta í 14. sinn sem það fer fram, en það var fyrst haldið árið 2006.

Stigamótið fer fram helgina 6. -7. júlí, en verður frábrugðið síðustu árum að því leyti að ekki verður spilað á föstudegi, heldur hefst á laugardegi og verður spilað fram á sunnudag eftir þörfum. Reynt verður að hafa dagskrá sunnudagsins sem stysta.

Keppt verður í fullorðinsflokkum, bæði karla og kvenna, en þátttökugjaldið er 6500 kr pr/lið, en skráning fer fram á stigakerfi.net, í stigakerfi strandblaksins. Keppendur skulu merkja greiðsluna með númeri sem þeim er úthlutað í skráningarferlinu og gæta þess að greiða áður en skráningarfrestur er liðinn. Staðfestingu skal senda á netfangið dyrleifhanna@gmail.com. Skráningargjald leggist inn á 0154-26-29, kt. 481281-0329. Skráningu lýkur að kvöldi mánudags 1.júlí kl 20:00.

Vestfirðingar eru hvattir til að taka þátt í mótinu en það stækkar með hverju árinu og má geta þess að í fyrra kepptu 21 lið, í 3 deildum, á þessu móti. Flest koma liðin að sunnan og því vill mótstjóri endilega sjá aukna þátttöku heimamanna. Þessa sömu helgi er haldin hátíð í bænum, sem nefnist Dýrafjarðardagar, og myndast því oft skemmtileg stemning í bænum. Hægt er að lesa meira um það inná facebooksíðu hátíðarinnar.

Vakin er sérstök athygli á stórtónleikum sem haldnir verða á föstudagskvöldinu í Bjarnaborg. Öll stærstu nöfnin í tónlistarbransanum mæta á svæðið en mótstjóri veit ekki betur en að þetta séu stærstu tónleikar fyrr og síðar í þessum firði. Frítt er á tónleikana ásamt því að það verður grillaður fiskur í boði fyrir gesti og ætti því enginn að láta það fram hjá sér fara! Nánari upplýsingar má sjá á facebook viðburði tónleikanna.

Mótsstjóri er Þingeyringurinn Dýrleif Hanna Sigmundsdóttir.

DEILA