Sigurður Pétursson: alvarlegt ef umsóknir falla úr gildi

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri.

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish segir að það hafi miklar afleiðingar fyrir Vestfirðinga ef þau umhverfismatsferli sem unnið hefur verið að verði felld niður. Það muni samstundis skapast sambærilegt ástand og þegar ÚUA felldi úr gildi leyfin í fyrra.  Þetta segir Sigurður í tilefni fyrirspurnar Bæjarins besta um möguleg áhrif af framkomnu áliti minnihluta Atvinnuveganefndar Alþingis þar sem lagt er til að aðrar umsóknir en þær sem staðfestar hafa verið af Matvælastofnun fyrir 5. mars 2019 falli niður.

„Þetta getur skapað nokkuð mikla óvissu ef það er ekki betur skilgreint því að eldisumsókn ekki fullgild fyrr en álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat liggur fyrir. Þess ber að nefna að enn hefur ekkert álit verið gefið út á þeim umhverfismatsferlum sem eru í Ísafjarðardjúpi. Einnig er hægt að benda á að það var ekki fyrr en 16. maí sl. að álit á nýju umhverfismati fyrir Patreks- og Tálknafjörð lá fyrir. Þarna skapast því hætta á að afturvirkt falli úr gildi sá fyrri vilji meirihluta Alþingis að gera mögulegt að bæta úr ágöllum fyrra umhverfismatsferli að mati ÚUA sem felldi eldisleyfin úr gildi í september á síðasta ári.“

Og Sigurður Pétursson bætir við:

„Það er ljóst að afleiðingar fyrir Vestfirðinga eru mikil ef að þau umhverfismatsferli sem unnið hefur verið að verði felld niður. Það mun samstundis skapast sambærilegt ástand og þegar ÚUA felldi úr gildi leyfin í fyrra. Óvissa myndast um áætlað framtíðarskipulag til að byggja upp umhverfisvænt og sjálfbært eldi. Svo ekki sé minnst á að réttlæta fjárfestingar og skuldbindingar sem þegar búið er að ráðast í. Þetta gæti því orðið óvissu ástand sem ekki er hægt að sjá í fljótu bragði hvernig hægt er að vinna út frá. Það er talsvert betra ástand að hafa leyfin í ákveðnu ferli þó svo það hafi gengið mjög hægt heldur en að hafa ekkert.“

Hið opinbera hefur verið seinvirkt

„Fiskeldi er matvælaframleiðsla sem krefst mikil undirbúnings og skipulags. Forsenda uppbyggingar umhverfisvæns árgangskipts fiskeldis er að til staðar séu aðskild eldissvæði sem hægt er að nýta í takti við áætlun um framtíðar uppbyggingu fiskeldisins. Fjárfestingaforsendur fyrirtækjanna hafa hingað til gert ráð fyrir því, að út frá núgildandi lögum og reglum verði ákveðnum umsóknarmarkmiðum náð og þó að tímalínan í því hafi verið afar óskýr. Fyrirtækin hafa því ráðist í fjárfestingar og skuldbindingar enda ekkert til þessa sem benti til þess að leyfisumsóknirnar yrðu þurrkaðar út. Það er ekki vegna fyrirtækjanna sjálfra sem að þessar leyfisumsóknir eru staddar á mismunandi stigum innan kerfisins. Stjórnsýslan, stofnanir og regluverk hefur ekki getað tryggt eðlilegan málshraða á nánast öllu sem tengist leyfisumsóknarferlinu. Einnig hafa komið inn á umsóknartímanum nýjar kröfur sem oftast hafa haft áhrif til þess að hægja á ferlinu.“

DEILA