Lög um lýðskóla samþykkt á alþingi

Alþingi í samþykkti í gær ný lög um lýðskóla en til þessa hefur ekki verið löggjöf í gildi um starfsemi þeirra hér á landi. Markmið laganna er að renna stoðum undir nýja námskosti hér á landi sem auka fjölbreytni menntakerfisins og mæta áhuga og hæfileikum nemenda sem vilja átta sig betur á möguleikum sínum og stefnu.

„Ég tel það heillaskref fyrir íslenskt menntakerfi að nú sé komin styrkari umgjörð um starfsemi lýðskóla og tel sýnt að þeir slíkir skólar muni í kjölfarið festa sig betur í sessi hér á landi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, „fjölbreytni í menntakerfinu er af hinu góða. Við viljum öll að sem flestir finni nám við hæfi og rækti sína hæfileika.“

Í lögunum er kveðið á um hvaða skilyrði fræðsluaðilar þurfa að uppfylla til að fá viðurkenningu til að starfa undir heitinu lýðskóli. Þar eru meðal annars sett fram skilyrði um óhagnaðardrifin rekstrarform, stjórnskipan lýðskóla, lágmarkstarfstíma og lágmarksfjölda nemenda. Einnig eru ákvæði um forvarnir og réttindi nemenda, aðbúnað og öryggi, hæfni starfsfólks og fyrirkomulag náms. Þá er mælst til þess að nám í lýðskólum nýtist nemendum til frekari verkefna eða til áframhaldandi náms m.a. með aðferðum raunfærnimats, sem er þekkt aðferðafræði á vettvangi framhaldsskóla og framhaldsfræðslu.

Við undirbúning lagasetningarinnar var meðal annars horft til norrænnar löggjafar um lýðskóla og þá einkum til starfsemi þeirra í Noregi og Danmörku.

Í áliti sínu segir allsherjar- og menntamálanefnd að nú þegar hafi ráðherra heimild til að gera  samninga um rekstrarframlög úr ríkissjóði á grundvelli laga um opinber fjármál og að þeir samningar geti verið til lengri tíma en árs í senn. Þá hvetur nefndin ráðherra til að setja fram stefnu og áætlun fyrir málefnasvið lýðskóla.

DEILA