Hef ekki stórar áhyggjur af þessu fyrir hans hönd

Engjanes. Mynd: Mats Wibe Lund.

Friðbjörn Garðarsson, lögmaður ítalska barónsins  Felix Von Longo-Liebenstein sem á Engjanes, segist ekki hafa stórar áhyggjur fyrir hans hönd af landakröfum 10 eigenda Drangavíkur. Samkvæmt kæru eigendanna 10 til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál telja þeir að stór hluti af jörðinni Engjaness tilheyri í raun Drangavík.

Friðbjörn sagðist ekki geta lesið þetta út  landamerkjabréfum. Hann segir að kröfurnar komi eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Það hefur aldrei verið ágreiningur við nokkurn mann um landamerkin milli jarðanna, segir Friðbjörn.

Ítalinn keypti Engjanes af Ólafi Ingólfssyni 2. október 2006 og Friðbjörn segir að hann hafi þá gengið um landið með Ólafi sem hafi lýst landamerkjum greinilega og þau hafi verið eins og sýnt er í gögnum varðandi Hvalárvirkjun. Friðbjörn segir að Ólafur hafi líka verið einn af eigendum Drangavíkur og vildi reyndar selja þann eignarhlut líka.  Kaupsamningurinn um Engjanes er undirritaður af Ólafi og eiginkonu hans Svanhildi Guðmundsdóttur. Afsalinu var þinglýst sama ár.

Friðbjörn segir að með þessa kröfu sem sett hefur verið fram verði að fara eins og hverja aðra landamerkjakröfu og af hálfu eigandans ítalska verði þá tekið til varna.

Vesturverk ehf leigði virkjunarréttindin af Felix Von Longo-Liebenstein í janúar 2009 og er sá samningur þinglýstur og þar með öllum aðgengilegur.

DEILA