England: kallað eftir byggðastefnu og valddreifingu

Sá einstæði atburður varð á sunnudaginn að 33 dagblöð og fréttaveitur í norður hluta Englands, frá t.d. Manchester og Liverpool til Leeds birtu sameiginlegan leiðara þar sem þess var krafist að stjórnvöld gripu til aðgerða gegn vaxandi efnahagslegum ójöfnuði milli landssvæða á Englandi.

Þar er vísað til hinnar svonefndar norður- suður línu, en hún markar skilin milli  efnahagslegrar þróunar, annars vegar er suðurhluti Englands og hins vegar norður hlutinn.

Vísað er til ýmissa skýrslna sem draga fram að hagvöxtur er minni á norðursvæðinu og meiri sunnan línunnar. Sama á við um tekjur og íbúðaverð, sem eru mun lægri á norðursvæðinu en á suðursvæðinu í kringum höfuðborgina. Eins er bent á að tiltekin útgjöld ríkisins eins og uppbygging innviða eru hærri á suðursvæðinu pr skattgreiðanda og loks að pólitísk áhrif eru meiri sunnan norður-suðurlínunnar.

Krafa ritstjórnanna var um aðgerðir til þess að draga úr því efnahagslega misvægi sem væri milli landshlutanna. Nánar tiltekið voru settar fram eftirfarandi tölusettar kröfur:

Valddreifing frá Lundúnum til landshlutanna

Lagt fram þegar í stað fé til samgöngubóta

Atvinnuuppbygging á norðursvæðinu

Átak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á norðursvæðinu

Stóraukið fjármagn í uppbyggingarsjóði á svæðinu

Fjölmiðlarnir beina máli sínu séstaklega til forystumanna stjórnmálaflokkanna og þar einkum til væntanlegs formanns Íhaldsflokksins og segja að eftir áratuga þróun verði ekki lengur við hana unað og stjórnvöld verði að grípa til róttækra aðgerða til þess að snúa þróuninni við svo unnt verði að jafna lífskjörin milli fólks eftir búsetu.

Ekki er aðeins krafist meira valds til borganna á norðursvæðinu heldur einnig til svæðanna utan við stórborgirnar eins og Manchester með þeim rökum að sem stærst svæði þurfi að blómstra.

Meðal þeirra sem láta þetta mál til sín taka er fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra íhaldsflokksins Michael Heseltine sem segir að það þurfi vald og fjármagn til þess að takast á við „ójöfnuðinn og gremjuna sem hann elur af sér“. Annar framámaður Bob Kerslake, sem var oddviti borgarstjórnarinnar í Sheffield um tíma segir að það þurfi gríðarlegt átak til þess að vinna á móti „fimmtíu ára hlutdrægni í opinberri stefnu fyrir Lundúni.“